„Stolt af okkar hestum og knöpum,“ segir Unnur Rún
Landsmót hestamanna fór fram í síðustu viku í Víðidalnum í Reykjavík og lauk nú á sunnudaginn. Hestamannafélagið Skagfirðingur sendi að sjálfsögðu keppendur til móts og lagði Feykir nokkrar spurningar fyrir Unni Rún Sigurpálsdóttir, annan þjálfara yngri flokka hjá Skagfirðingi, spurði út í hvernig gekk hjá knöpum félagsins og hvort undirbúningur fyrir Landsmót á Hólum 2026 væri hafinn.
Að sögn Unnar Rúnar átti Hestmannafélagið Skagfirðingur á sjötta tug skráninga á Landsmóti og stóðu allir keppendur og fulltrúar Skagfirðings sig með sóma, hvort sem var í gæðingakeppni, íþróttakeppni eða skeiðgreinum. „Árangur í tölum var misjafn milli keppenda sem stóðu sig vel í öllum flokkum. Við förum virkilega sátt frá mótinu, stolt af okkar hestum og knöpum,“ segir Unnur Rún.
Var einhver Skagfirðinga sem vann til verðlauna eða kom á óvart? „Það var kannski enginn sem kom sérstaklega á óvart nema þá að einhverjir keppendur hafi komið sjálfum sér á óvart með sínum árangri og áræðni. Þetta er stórt mót og mikið umleikis á allan hátt þannig að það er mikil reynsla fyrir knapana að fá tækifæri til að keppa á Landsmóti. Allar greinar eru fjölmennar og keppnin hörð því allir hafa lagt allt sitt í að ná sér í keppnisrétt.“
Eigum við efnilega knapa í barnaflokki og hvað þurfa ungir knapar að hafa í huga þegar keppt er á Landsmóti, er til dæmis mikil pressa á þeim? „Síðustu ár hefur verið mikil uppbygging í æskulýðsstarfi félagsins og gaman að nefna að allir keppendur í barnaflokki hafa verið í kennslu hjá okkur Finnboga [Bjarnasyni] í vetur og sumar. Við eigum svo sannarlega efnilega unga knapa og unga fólkið okkar stóð sig mjög vel á þessu stóra sviði og er reynslunni ríkari. Það vilja að sjálfsögðu allir standa sig vel og sýna sitt allra besta – það tekst stundum og stundum ekki.
Landsmótið tókst virkilega vel
Unnur Rún segir að bæði knapi og hestur þurfi að eiga góðan dag og ná vel saman til að skila topp sýningu. „Það er mikil vinna á bak við það að tengja saman hest og knapa. Á svona stóru móti er mikið utanaðkomandi áreiti og nýtt umhverfi sem getur truflað einbeitinguna. Skagfirðingur leggur ekki pressu á knapana og ekki heldur við reiðkennararnir en að sjálfsögðu gleðjumst við enn meira þegar vel gengur. Við leggjum áherslu á að krakkarnir öðlist góða reynslu, læri af því sem vel er gert sem og því sem miður fer. Möguleg pressa kæmi sennileg helst frá knöpunum sjálfum en krakkarnir lögðu allt sitt í keppnina, stóðu sig virkilega vel og mikil gleði og samheldni var í hópnum.“
Var þetta glæsilegasta Landsmót sem þú hefur sótt? „Það er nú oft sagt eftir hvert Landsmót að það sé það besta hingað til, enda eru þau í sífelldri þróun og að mínu mati tókst þetta Landsmót virkilega vel, veður og svæði frábært, glæsilegar sýningar, góð stemning og full brekka af áhorfendum.“
Er komin mikil pressa á að standa vel að málum á Hólum eftir tvö ár og er undirbúningur hafinn? „Það er alltaf pressa þegar haldin eru mót, hvort sem þau eru lítil eða stór. Það vilja allir að takist vel til enda mikil vinna á bak við mótahald. Undirbúningur er farinn af stað fyrir næsta Landsmót á Hólum. Við Skagfirðingar erum stoltir af Hólastað og það munu allir leggja sig fram um að taka vel á móti gestum, gera aðstöðuna sem besta og óska eftir að veðurguðir verði með okkur í liði. Víðidalurinn og Hólar í Hjaltadal eru góðir staðir en umhverfi þeirra er gjörólíkt og því ekki hægt að yfirfæra allt á milli þessara tveggja staða. Það mun allt vera lagt í að eiga gott Landsmót á Hólum 2026.“
Hvað stóð upp úr á Landsmótinu? „Fjöldi glæsilegra hesta, skemmtilegar hópreiðar, góða veðrið og frammistaðan hjá öllu ungu knöpunum okkar. Það er einnig alltaf gaman að fylgjast með þeim hrossum sem maður hefur tekið þátt í þjálfun á sem og ungu hrossunum á kynbótabrautinni. Einnig má nefna hér skagfirsk ræktaða parið sem sigraði barnaflokk með hæstu einkunn mótsins (9.25), Þin frá Enni og Viktoríu Huld Hannesdóttir en það er alveg einstakt samspil og traust þar á milli,“ segir Unnur Rún að lokum
Hér að neðan má sjá lista yfir þau pör sem riðu til úrslita og verðlauna á mótinu í nafni Hestamannafélagsiins Skagfirðings:
- Barnaflokkur: Sigrún Sunna Reynisdóttir með Myllu frá Hólum 8.49 (12.sæti) og Emma Rún Arnardóttir með Tenór frá Litlu-Sandvík (15.sæti)
- Ungmennaflokkur: Þórgunnur Þórarinsdóttir með Jaka frá Skipanesi 8.58 (11.sæti) og Ólöf Bára Birgisdóttir með Jarl frá Hrafnagili 8.51 (14.sæti)
- A-flokkur: Finnbogi Bjarnason og Einir frá Enni 8.69 (15.sæti)
- B-flokkur: Mette Mannseth með Klukku frá Þúfum 8.86 (5.sæti) og Bjarni Jónasson með Dís frá Ytra-Vallholti 8.82 (10.sæti)
- 150m skeið: Daniel Gunnarsson með Skálmöld frá Torfunesi 14.21 sekúnda (3.sæti) og Sigurður Heiðar Birgisson með Hrinu frá Hólum 14.55 (7.sæti)
- Gæðingaskeið: Daniel Gunnarsson og Strákur frá Miðsitju með einkunnina 8.33 og þriðja sæti.
- Flugskeið: Mette Mannseth og Vívaldí frá Torfunesi 7.75 sek (8.sæti) og Daniel Gunnarsson með Smára frá Sauðanesi 7.79 (10.sæti).
- Fjórgangur og tölt: Mette Mannseth með Hannibal frá Þúfum hlutu 8.0 í fjórgangi (3.sæti) og 8.28 í tölti (5.sæti).
- Fimmgangur: Bjarni Jónasson með Hörpu Sjöfn frá Hvolsvelli 7.26 (sjötta sæti)
- Sigurvegari í sýningu ræktunarbúa: Íbishóll
Hér að neðan má sjá nokkrar aðsendar myndir frá Landsmótinu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.