Stólastúlkur stigi frá að tryggja sætið í Bestu deildinni

Melissa (lengst til vinstri) og Hannah (önnur frá hægri) sáu um að setja boltann í mark Selfyssinga í dag. Myndin er úr leik gegn ÍBV fyrr í sumar en Eyjastúlkur mæta á Krókinn nk. laugardag í leik sem sennilega ræður úrslitum um hvort liðið heldur sæti sínu í Bestu deildinni. MYND: ÓAB
Melissa (lengst til vinstri) og Hannah (önnur frá hægri) sáu um að setja boltann í mark Selfyssinga í dag. Myndin er úr leik gegn ÍBV fyrr í sumar en Eyjastúlkur mæta á Krókinn nk. laugardag í leik sem sennilega ræður úrslitum um hvort liðið heldur sæti sínu í Bestu deildinni. MYND: ÓAB

Tindastóll sótti lið Selfoss heim í annarri umferð úrslitakeppni neðri hluta Bestu deildarinnar í dag. Á sama tíma áttust við lið ÍBV og Keflavíkur í Eyjum en fyrir umferðina stóð lið ÍBV best að vígi, þá kom lið Tindastóls og loks lið Keflavíkur. Selfossliðið var hins vegar þegar fallið en gaf ekkert eftir gegn Stólastúlkum sem reyndust þó sterkari á endanum og unnu leikinn 1-2.

Sigurinn var mjög mikilvægur því lið Keflavíkur gerði sér lítið fyrir og sigraði Eyjastúlkur með sömu markatölu. Staða liðanna er því sú sama og hún var áður en úrslitakeppnin hófst nema hvað nú eru ÍBV og Keflavík með jafn mörg stig, 21, en lið Tindastóls 23 og stendur því best að vígi fyrir lokaumferðina sem verður næstkomandi laugardag. Þá kemur ÍBV í heimsókn á Krókinn en liði Tindastóls dugar eitt stig í leiknum en væntanlega verða gestirnir að sækja til sigurs því á sama tíma mæta Keflvíkingar liði Selfoss sem er ekki til stórræðanna. Spennan er því enn algjör í neðri hlutanum.

Tindastólsliðið sótti hart að marki Selfyssinga frá byrjun og uppskar mark á 16. mínútu. Stólastúlkur fengu þá góð færi eftir hornspyrnur en Karen Rós varði vel í marki heimastúlkna. Laufey tók síðan stutta hornspyrnu, gaf á Hönnuh sem sendi góðan bolta inn á markteig þar sem Karen missti af boltanum sem féll fyrir Melissu Garcia sem kom honum í markið. Guðrún Þóra Geirsdóttir jafnaði metin á 40. mínútu með sinni fyrstu snertingu en hún hafði komið inn á mínútu síðar. Hún skallaði laglega inn sendingu frá Barbáru Gísladóttur og Monica átti ekki séns í marki Tindastóls. Staðan 1-1 í hálfleik.

Stólastúlkur náðu yfirhöndinni á ný í síðari hálfleik en markið lét á sér standa. Murr slapp ein inn fyrir vörn Selfoss en aðstoðardómari flaggaði hana rangstæða. Á 81. mínútu átti Laufey langa sendingu inn fyrir vörn heimastúlkna og þá slapp Aldís María inn fyrir, með varnarmann í bakinu tókst henni að koma boltanum framhjá Kareni Rós í markinu en Karen náði Aldísi niður og uppskeran vítaspyrna. Úr henni skoraði Hannah Cade af öryggi og tryggði liði Tindastóls sigurinn.

Lokaumferð úrslitakeppninnar verður sem fyrr segir á laugardaginn og hefjast leikirnir kl. 14:00. Koma svo – áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir