Stólastúlkur sóttu þrjú stig til Eyja
Stólastúlkur gerðu góða ferð til Vestmannaeyja í dag þar sem þær mættu liði ÍBV í Bestu deildinni. Þær lentu undir eftir rúma mínútu en það er ekkert til í orðabók okkar stúlkna um uppgjöf. Tvo mörk frá Melissu Garcia í sitt hvorum hálfleik tryggðu dýrmætan sigur og þær voru því glaðbeittar hetjurnar okkar á heimleið með Herjólfi. Lokatölur 1-2 fyrir Tindastól en Vestmanneyingar geta þó huggað sig við að þeir nældu síðar í kvöld í Íslandsmeistaratitilinn í handbolta.
Það kemur fyrir að það blási á Hásteinsvelli í Eyjum og dagurinn í dag var einmitt þannig. Þó vindurinn hafi sannarlega átt þátt í fyrsta marki leiksins þá var það nú óþarflega ódýrt mark að gefa. Eftir sókn gestanna þrumaði markvörður ÍBV boltanum fram völlinn og inn fyrir varnarlínu Stólastúlkna og þar slapp Olga Sevcova inn fyrir, Melissa hikaði í markinu og Olga lyfti boltanum laglega yfir hana og í markið. Melissa jafnaði metin á 16. mínútu eftir að Aldís hafði átt flottan sprett upp hægri kantinn, náði góðum bolta fyrir markið og Melissa komst fram fyrir varnarmann og markvörð heimastúlkna og lyfti boltanum afar snyrtilega yfir Guðnýju og í fjærhornið. Staðan 1-1 í hálfleik. Sigurmarkið kom síðan á 71. mínútu. Þá stöðvaði Gwen skyndisókn ÍBV með frábærri tæklingu í vítateig Tindastóls, boltanum var komið upp hægri kantinn þar sem Murr nýtti styrk sinn og hafði góðan tíma til að koma sér í góða stöðu. Hún komst inn á teiginn og þrumaði síðan boltanum í áttina að Melissu sem var enn á ný mætt á nærstöngina og náði að stýra boltanum í markið. Bæði lið fengu færi til að skora áður en yfir lauk. Besta færi ÍBV var dúndurskot í stöng eftir góða sókn en hinum megin varði Guðný meistaralega laglegt skot frá Murr sem stefndi efst í hornið.
Frábær seiglusigur í Eyjum því staðreynd og Stólastúlkur komnar með átta stig á töfluna og eru nú í sjötta sæti deildarinnar að loknum sex umferðum. Þær eiga hins vegar eftir að mæta þremur liðum sem eru í efri hlutanum áður en fyrri umferð lýkur en það eru lið Þróttar, Vals og Þórs/KA. Næsti leikur verður gegn liði Þróttar næstkomandi þriðjudag.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.