Stólastúlkur óheppnar að taka ekki stig af toppliðinu

Birgitta lét finna vel fyrir sér í kvöld en þessi 16 ára Skagstrendingur er ófeimin við að sýna hvað í henni býr í Bestu deildinni. MYND: ÓAB
Birgitta lét finna vel fyrir sér í kvöld en þessi 16 ára Skagstrendingur er ófeimin við að sýna hvað í henni býr í Bestu deildinni. MYND: ÓAB

Tindastóll mætti toppliði Breiðabliks á Króknum í kvöld. Oftar en ekki hafa þessir leikir gegn Blikum reynst erfiðir enda Kópavogsliðið skipað toppleikmönnum í öllum stöðum í gegnum árin og lið Tindastóls fengið lítið að sjá af boltanum. Blikar byrjuðu leikinn frábærlega og fyrstu tíu mínúturnar höfðu örugglega margir stuðningsmenn áhyggjur af því hversu stór skellurinn yrði. Þá gerðist það sem aldrei hefur gerst áður í leikjum liðanna – Stólastúlkur tóku stjórnina og mega vera drullusvekktar að hafa ekki í það minnsta krækt í stig. Lokatölur svekkjandi 0-1 tap en heimaliðið má sannarlega leggjast stolt á koddann í kvöld.

Tindastólsliðið var án Aldísar Maríu sem er meidd og Elísu Bríetar sem er í landsliðsverkefni í Finnlandi. Það er vel þekkt að Blikar hafa verið í meiðslabasli og þá sat örugglega einhver þreyta í gestunum sem voru að spila þriðja leik sinn á viku og síðast framlengdan leik gegn Þór/KA á Akureyri.

Blikastúlkur fóru gríðarlega vel af stað og virtust hreinlega vera að springa úr orku. Kannski fengu þær of mikið pláss á fyrstu mínútunum því hvað eftir annað skildu þær heimastúlkur eftir á rassinum. Fyrsta markið kom á fimmtu mínútu þegar gestirnir hreyfðu boltann laglega fyrir framan vítateig Tindastóls og að endingu átti Andrea Rut frábært skot sem Monica átti engan séns í. Það tók Stólastúlkur nokkrar mínútur að ná áttum en um leið og þær fundu taktinn, fóru að spila boltanum laglega sín á milli og gáfu Blikur aldrei frið á boltanum þá mátti sjá að gestunum líkaði það ekki sérlega vel.

Gæði Blika eru auðvitað þannig að þær eru snöggar að refsa en gestirnir fengu ekki mörg færi í kvöld gegn hörkuduglegu og einbeittu liði Tindastóls sem hafði náð yfirhöndinni í leiknum þegar flautað var til hálfleiks. Staðan þó 0-1.

Í síðari hálfleik kom lið Tindastóls með sama krafti til leiks og leisti þreytulega pressu gestanna af þolinmæði og öryggi. Hvað eftir annað komust Stólastúlkur upp kantana. Sérstaklega voru María Dögg og Birgitta erfiðar gestunum; María með góða langa bolta ýmist upp kantinn eða á Jordyn. Liðið skapaði sér nokkur ágæt færi en að þessu sinni vantaði gæði í slúttin og Telma í marki Blika var sem drottning í ríki sínu, öryggið uppmálað. Bestu færin fékk Jordyn og þar á meðal ein gegn Telmu en skaut beint á markmanninn. Vörn Blika hefur aðeins fengið fjögur mörk á sig í sumar og þær varðist af krafti og þurftu hvað eftir annað að dúndra boltanum fram völlinn til að bægja frá sóknaraðgerðum Stólastúlkna og uppskáru á endanum sigur og hirtu stigin.

Eftir erfiðar fyrstu tíu mínútur leiksins var verulega gaman að sjá spilamennsku og dugnað Stólastúlkna. Þær voru ekki að spila á móti einhverjum aukvisum og leystu allt sem Blikar reyndu með glæsibrag – ef þær hefðu nú bara byrjað leikinn jafn vel þá hefði verið spennandi að sjá þreytulegt Blikaliðið þurfa að sækja og opna sig aftast á vellinum. En lið Tindastóls getur sannarlega tekið margt jákvætt út úr leiknum og ekki var annað að heyra en að stuðningsfólk liðsins hafi verið sáttir við allt nema úrslitin. Heilt yfir voru allir leikmenn að gera vel en María Dögg og Birgitta voru verulega góðar og harðar í horn að taka.

Næsti leikur er hér heima á laugardaginn en þá kemur lið Stjörnunnar í heimsókn. Leikurinn hefst kl. 16:15.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir