Stólastúlkur með góðan sigur á Austfjarðaúrvalinu
Kvennalið Tindastóls náði í góðan sigur í dag á Kjarnafæðimótinu í knattspyrnu en stelpurnar mættu þá Austfjarðaúrvalinu sem er sameiginlegt lið FHL og Einherja. Úrslit leiksins urðu 4-0 og fylgdu stelpurnar þar með vel eftir 2-0 sigri sem vannst á liði Völsungs um síðustu helgi.
Það var Aldís María sem skellti í eina góða þrennu í dag og María Dögg var með eitt mark. „Mjög góð frammistaða hjá liðinu heilt yfir og allar að standa sig vel,“ sagði Donni þjálfari þegar Feykir spurði hann út í leikinn sem lauk upp úr fimm í dag. „Það gengur vel að vinna i hlutunum sem við erum að vinna í og við erum glöð með það,“ sagði hann og bætti við að hann hafi jafnframt verið mjög ánægður með þær stúlkur sem komu inn á og það hafi verið frábært fyrir Lillu [markvörð] og liðið að halda hreinu annan leikinn í röð.
Enn er liðið án erlendra leikmanna en von er á þeim til liðsins í byrjun febrúar.
Bryndís og Konni semja
Í gær var greint frá því á síðu knattspyrnudeildar Tindastóls að fyrirliðinn Bryndís Rut Haraldsdóttir frá Brautarholti hafi endurnýjað samninginn við lið Tindastóls sem er að sjálfsögðu mikið gleðiefni enda algjör máttarstólpi og leiðtogi liðsins. Þá var einnig samið við Konráð Frey Sigurðsson um að halda áfram sem aðstoðarþjálfari kvennaliðsins og styðja þannig við bakið á bróðir sínum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.