Stólastúlkur áfram á meðal þeirra Bestu!

Hún var tær gleði Stólastúlkna í leikslok eftir að hafa trygtt sæti sitt í Bestu deildinni. MYND: ÓAB
Hún var tær gleði Stólastúlkna í leikslok eftir að hafa trygtt sæti sitt í Bestu deildinni. MYND: ÓAB

Mikilvægasti leikur sumarsins var spilaður í dag á Sauðárkróksvelli þar sem Tindastóll og Fylkir mættust í nokkurs konar úrslitaleik um sæti í Bestu deild kvenna. Með sigri Fylkis hefðu þær jafnað Stólastúlkur að stigum og átt botnlið Keflavíkur í síðustu umferðinni í úrslitakeppni neðri liða á meðan lið Tindastóls hefði sótt Stjörnuliðið heim. Frá fyrstu mínútu réðu hins vegar heimastúlkur ferðinni, spiluðu í raun hinn fullkomna leik og unnu lið gestanna 3-0 – og tryggðu þar með sætið í Bestu deildinni. Til hamingju Stólastúlkur!

Það var sumarveður á Króknum í dag, sól og hlýtt en dálítil sunnanátt sem hafði svo sem ekki mikil áhrif á leikinn. Það tók lið Tindastóls aðeins 55 sekúndur að ná forystunni en þá átti Laufey Harpa góða sendingu inn fyrir vörn Fylkis þar sem Elísa Bríet kom á siglingunni og gerði laglegt mark. Hún bætti við marki við keimlíkar aðstæður tuttugu mínútum síðar, þá var það nafna hennar, Elise Anna Morris, sem sendi boltann fram og Elísa Bríet stakk sér milli tveggja varnarmann og með fyrstu snertinu lyfti hún boltanum úr D-boganum yfir Tinnu í marki Fylkis. Eftir þetta höfðu heimastúlkur öll völd og vart hægt að segja að gestirnirm studdir fjölmörgum stuðningsmönnum sínum, hafi skapað sér alvöru færi það sem eftir lifði leiks. Gabby Johnson gerði síðan þriðja mark Tindastóls á 27. mínútu eftir góðan undirbúning Jordyn Rhodes. Fram að hléi héldu Stólastúlkur áfram að banka að dyrum Fylkis, næst komst Hugrún því að skora en smellti boltanum í þverslá.

Þriggja marka forysta í hálfleik og ljóst að ætluðu gestirnir sér eitthvað út úr leiknum þá þurftu þær að byrja síðari hálfleik af krafti. Þær pressuðu nokkuð til að byrja með en Bryndís Rut og stöllur í vörn Tindastóls voru ekki að gefa nein færi. Tvívegis fékk Fylkisliðið aukaspyrnur á álitlegum stað en lítil hætta skapaðist. Hinum megin hins vegar björguðu Fylkisstúlkur tvívegis á línu og Aldís María setti boltann í stöngina eftir að hafa leikiið á Tinnu í markinu. Það má segja að Monica, sem greip nokkrums sinnum vel inn í leikinn, hafi aðeins einu sinni þurft að hafa fyrir hlutunum en það var eftir stundarfjórðung. Þá varði hún glæsilega skot Írísar Unu sem stefndi í vinkilinn.

Hreint frábær frammistaða Tindastóls

Lið Tindastóls fagnaði innilega sætum sigri og þriðja sumrinu í röð í Bestu deild kvenna sem er hreint frábær árangur. Hópurinn virkaði þunnskipaður fyrir mót og það var högg að missa Gwen um mitt sumar. Þrátt fyrir að hafa ekki unnið leik í síðari umferðinni í Bestu deildinni var liðið í áttunda sæti með 13 stig að deildarkeppni lokinni og því kannski ekki ástæða fyrir mikilli bjartsýni fyrir úrslitakeppnina. Þá stigu Stólastúlkur upp og sýndu heldur betur hvað í þeim býr. Það var ótrúlega gaman að sjá andann og kraftinn í liðinu í dag – það ætlaði engin Stólastúlkna að sætta sig við tap.

Það áttu allir leikmenn liðsins toppleik í dag, allir skiluðu sínu hlutverki, hjálpuðu meðspilurum sínum og gáfu ekki þumlung eftir. Fremst í flokki var Elísa Bríet, önnur 16 ára stúlkan frá Skagaströnd eins og allir ættu að vera farnir að vita. Hún gerði tvö fyrstu mörk Tindastóls af fádæma yfirvegun í mikilvægasta leik sumarsins. Hún var í raun óheppin að skora ekki fjögur mörk í leiknum.

Umgjörð leiksins var flott í dag og heimamenn létu sig ekki vanta, vel dúðaðir í einum gjöfulasta hitadegi sumarsins. Eins var gaman að sjá að Árbæingar fjölmenntu í stúkuna og ólíklegt að nokkurn tímann hafi fleiri gestastuðningsmenn sótt leik á Króknum – nema mögulega Siglfirðingar þegar rígurinn milli Tindastóls og KS var upp á sitt allra besta á síðustu öld. Mark á fyrstu mínútu slökkti að miklu leyti í gestunum, bæði innan og utanvallar, og þeir eðlilega frekar hnuggnir í leikslok. En engu að síður vel gert að fylgja sínu liði á Krókinn.

Eftir leiki dagsins er því ljóst að það er hlutskipti Fylkis og Keflavíkur að falla í Lengjudeildina en lið Tindastóls verður áfram á meðal þeirra bestu. Sannarlega góður dagur á vellinum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir