Stólastúlkum mistókst að stela sjöunda sætinu af Stjörnunni

Hin eldsnögga og grjótharða Hugrún Pálsdóttir spilaði 200. leik sinn fyrir Tindastól í gær. Hér er hún á ferðinni í leik númer 198. MYND: SIGURÐUR INGI
Hin eldsnögga og grjótharða Hugrún Pálsdóttir spilaði 200. leik sinn fyrir Tindastól í gær. Hér er hún á ferðinni í leik númer 198. MYND: SIGURÐUR INGI

Stólastúlkur spiluðu síðasta leik sinn í Bestu deildinni þetta sumarið í gær þegar þær heimsóttu Stjörnuna í Garðabæinn í úrslitakeppni neðri liða. Bæði lið voru örugg með sitt sæti í deildinni en Donni vildi sjá sitt lið sækja til sigurs og ræna sjöunda sætinu af Stjörnunni og vinna Forsetabikarinn. Tindastóll þurfti að vinna leikinn með þriggja marka mun til þess að svo gæti orðið en það hafðist ekki í þetta skiptið. Lokatölur 2-1 fyrir Stjörnuna.

Reyndar leit þessi draumur ekki svo fáránlega út í byrjun því Jordyn Rhodes kom liði Tindastóls yfir eftir 22 sekúndur, Gabby vann þá boltann á miðjunni kom honum fram á Jordyn sem lagði boltann fyrir sig og lét vaða af um 25-30 metra færi og boltinn söng í netinu. Leikurinn var býsna opinn eftir þetta og bæði lið fengu færi og urmul hornspyrna. Stjörnustúlkur vörðust vel föstum leikatriðum Tindastóls. Á 24. mínútu jöfnuðu heimastúlkur metin með marki Huldu Arnarsdóttur eftir laglegt samspil. Jafnt var í hálfleik en á 48. mínútu fór Hrefna Jónsdóttir illa með vörn Tindastóls, brunaði framhjá nokkrum leikmönnum og komst á auðan sjó inn á teig og afgreiddi boltann örugglega í mark Monicu.

Sigurinn hefði getað lent hvoru megin sem var og leikurinn bar þess kannski merki að það voru engin ósköp undir, bæði lið nokkuð sátt við sitt í sumar. Það hefur verið jákvæð þróun í leik Tindastóls síðustu misserin, liðinu gengur mun betur að halda í boltann, spila boltanum fram völlinn og skapa færi. Það sem finna má að er kannski helst að varnarleikurinn hefur ekki verið jafn öflugur og oft áður og ekki hefur tekist nógu vel að nýta færin.

Lið Tindastóls átti undir högg að sækja í síðari umferð Bestu deildarinnar en náði vopnum sínum í úrslitakeppninni. Liðið endaði með 19 stig, markatöluna -18 en Jordyn Rhodes gerði tólf mörk í 21 leik í Bestu deildinni og er næst markahæst í deildinni. Lið Fylkis og Keflavíkur féllu í Lengjudeildina en þau lið voru ágætlega spilandi; Fylkiskonum gekk hinsvegar illa að skora og Keflvíkingum hörmulega að halda forystunni í sínum leikjum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir