Stólarnir unnu alla leiki sína í síðari umferðinni
Karlalið Tindastóls í knattspyrnu spilaði síðasta leik sinn í 4. deild í gær en þá sóttu strákarnir lið KÁ heim í Hafnarfjörð á BIRTU-völlinn. Stólarnir höfðu þegar tryggt sér efsta sæti deildarinnar og sæti í 3. deild að ári og því leikurinn kannski mest upp á stoltið og að halda mönnum á tánum fyrir komandi undanúrslitaleik í Fótbolti.net bikarnum. Lokatölur urðu 0-3 fyrir Stólana.
Fyrri leikur liðanna fór fram á Króknum í júlí en hann endaði með jafntefli, 1-1, en síðan þá hafa Stólarnir unnið alla sína leiki. Addi Ólafs kom Stólunum yfir í gær eftir 22 mínútur og Svend Emil bætti öðru marki við á 42. mínútu. Addi gulltryggði svo sigurinn með marki á 71. mínútu. Addi er búinn að gera níu mörk í deildinni í sumar og hefur sennilega aldrei spilað betur en að auki er hann búinn að gera tvö mörk í Fótbolti.net bikarnum.
Þar með endaði lið Tindastóls með 43 stig á toppi 4. deildar, vann 13 leiki, gerði fjögur jafntefli og tapaði aðeins einum leik. Liðið vann alla leiki sína í síðari umferð mótsins og markatala liðsins var 48-14. Þá reiknast Feyki til að liðið hafi aðeins fengið þrjú mörk á sig alla síðari umferðina. Góður árangur byggist oftar en ekki á góðri vörn og ef Stólarnir halda í sinn mannskap fyrir næsta tímabil í 3. deildinni þá veit þetta á gott.
Það er lið Ýmis í Kópavogi sem fylgir Stólunum upp um deild en Ýmir vann lið Hamars í dag, 3-2, eftir að hafa lent 0-2 undir. Árborg, sem var að spila mjög vel í seinni umferðinni, þó ekki jafn frábærlega og Stólarnir, urðu því að sætta sig við þriðja sætið. Það voru síðan Skallagrímur og RB sem féllu í 5. deild.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.