Stólarnir töpuðu naumlega fyrir Dalvík/Reyni í Mjólkurbikarnum
Tindastóll spilaði ekki bara körfuboltaleik sl. laugardag því fótboltastrákarnir skruppu yfir Öxnadalsheiðina og mættu sameinuðu liði Dalvíkur/Reynis á Dalvíkurvelli. Leikurinn var liður í 2. umferð Mjólkurbikars KSÍ. Heimamenn spila tveimur deildum ofar en Stólarnir, eru semsagt í 2. deildinni, en þeir lentu í brasi með gestina. Lokatölur voru þó 2-1 fyrir Dalvík/Reyni og sigurganga Tindastóls í bikarnum reyndist því stutt.
Það var Blönduósingurinn knái, Jón Gísli Stefánsson, sem náði forystunni fyrir lið Tindastóls á 18. mínútu og litlu mátti muna að gestirnir héldu forskotinu fram að leikhléi. Borja Lopez Laguna jafnaði því miður metin fyrir Dalvík/Reyni á þriðju mínútu í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Það var síðan á 72. mínútu leiksins sem Áki Sölvason gerði sigurmark leiksins og sendi Stólana út úr bikarnum.
Það var kannski helst að frétta af liðsuppstillingu Dom Furness, þjálfara Tindastóls, að hann var í svipaðri stöðu og Pavel Ermolinski, þjálfari Stólanna í körfunni – átti hann að velja sjálfan sig í liðið!? Jú. Ólíkt Pavel þá mætti Dom í keppnisbúningnum á Dalvíkurvöll og spilaði sinn fyrsta leik fyrir Stólana frá því sumarið 2012.
Við munum alltaf hafa áætlun um hvernig á að vinna leikinn
Feykir lagði nokkrar spurningar fyrir Dom þjálfara og byrjaði á að spyrja hvað honum hefði fundist um leikinn á Dalvík. „Við vorum með plan fyrir leikinn og trúðum því að þetta væri leikur sem við gætum unnið gegn andstæðingi á hærra stigi. Það er hugarfarið sem við þurfum að hafa. Sama hvaða andstæðing við spilum á móti, við munum alltaf hafa áætlun um hvernig á að vinna leikinn, jafnvel þó það sé andstæðingur á efstu stigi. Sú trú er svo mikilvæg og maður sá að hún var áberandi á vellinum, hvernig strákarnir unnu og börðust fyrir hvern annan og settu pressu á mark Dalvíkinga alveg þangað til flautað var til leiksloka.“
Varstu ánægður með liðið? „Strákarnir hafa verið stórkostlegir frá fyrsta degi. Þeir hafa tekið vel á því á æfingum, ýtt hver við öðrum, stutt við bakið á félögum sínum, keppt hver við annan – þetta hefur verið frábært. Viðhorfið hefur verið frábært og þeir hafa lagt hart að sér.“
Stefnirðu á að styrkja liðið fyrir átökin í 4. deildinni? „Spyrðu hvaða þjálfara sem er og þeir munu alltaf leitast við að styrkja liðið, auðvitað erum við ekkert öðruvísi; við erum að vinna hörðum höndum að því að ná árangri.“
Næsti leikur Tindastóls er ekki fyrr en eftir rúman mánuð en þá hefst keppni í 4. deild Íslandsmótsins. Stólarnir fá Uppsveitir í heimsókn laugardaginn 13. maí og hefst leikurinn kl. 15:00.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.