Stólarnir settu sjö mörk á Samherja
David Bercedo, sem kom til liðs við karlalið Tindastóls nýlega, reimaði á sig markaskóna í gær þegar Stólarnir tóku á móti Samherjum í fyrstu umferð Mjólkurbikarsins. Leikið var á Krókum og þegar flautað var til leiksloka hafði Bercedo gert fimm af sjö mörkum Tindastóls í öruggum 7-0 sigri.
Bercedo gerði fyrsta markið eftir fjögurra mínútna leik og bætti öðru marki sínu við á 36. mínútu. Benedikt Gröndal kom svo heimamönnum í 3-0 á 42. mínútu og staðan því 3-0 í hálfleik. Bercedo gerði síðan næstu þrjú mörk á 50., 64. og 81. mínútu en það var síðan Viktor Smári Sveinsson sem gerði síðasta markið á 84. mínútu.
Í annarri umferð reynir meira á lið Tindastóls því þá kemur lið Magna frá Grenivík í heimsókn en Grenvíkingar spila í 3. deild í sumar á meðan lið Tindastóls er enn í 4. deildinni. Leikurinn fer fram á Króknum næstkomandi föstudag, 12. apríl, og hefst væntanlega í vorsólinni stundvíslega kl. 19:15.
Samkvæmt upplýsingum Feykis er knattspyrnudeildin að renna fyrir nokkra álitlega leikmenn sem ætlað er að styrkja hópinn. Vonandi styttist í staðfestingar og undirskriftir en enn eru nokkrar viku til stefnu því Íslandsmótið í 4. deild hefst í byrjun maí.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.