Stólarnir reyndust sterkari á vítapunktinum
Tindastóll og Magni Grenivík mættust í dag í 2. umferð Mjólkurbikars karla og fór leikurinn fram við fínar aðstæður á Króknum. Grenvíkingar eru deild ofar en Stólarnir en urðu að sætta sig við að kveðja bikarinn eftir að hafa lotið í lægra haldi eftir framlengdan leik og vítaspyrnukeppni þar sem Stólarnir reyndust sterkari á svellinu.
Það voru gestirnir sem náðu forystunni á 19. mínútu með marki Adams Arnar Guðmundssonar. Magni því yfir í hálfleik en Sverrir Hrafn Friðriksson, fyrirliði Tindastóls, jafnaði metin á 52. mínútu. Fleiri mörk voru ekki skoruð í venjulegum leiktíma og ekki heldur í framlengingu og þurfti því að grípa til vítaspyrnukeppni.
Þar höfðu heimamenn betur, 3-2, og eru því komnir í þriðju umferð Mjólkurbikarsins. Það var að sjálfsögðu svolítið drama í vítaspyrnukeppninni því Nökkvi, markvörður Stólanna, varði fyrstu tvær spyrnur Magnamanna en Ferriol hafði skilað fyrsta víti Tindastóls rétta leið. Bercado hleypti spennu í þetta með því að klúðra öðru víti Tindastóls og staðan því 1-0 eftir fjórar spyrnur. Næstu fjórar spyrnur rötuðu hinsvegar í markið þar sem Jónas Aron og Svend Emil skoruðu fyrir Stólana og staðan því 3-2 fyrir lokaumferðina. Þá skutu gestirnir í þverslána og sigurinn því í höfn og Stólarnir gátu sparað fimmta tökumanninn.
Ekki er ljóst hverjir verða andstæðingar Stólanna í 32 liða úrslitum en væntanlega verða þá sterkustu lið landsins komin í pottinn – sem gæti því gefið spennandi andstæðing. Leikirnir í þriðju umferðinni fara fram 24. og 25. apríl.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.