Stólarnir með níu og hálfa tá í 3. deild
Lið Tindastóls í 4. deildinni tók stórt skref í átt að sæti í 3. deild að ári í gær en þá heimsóttu þeir botnlið RB og rótburstuðu þá. Stólarnir eru nú með afar heilbrigt forskot á liðin sem eru að berjast á toppnum, bæði stigalega og á markatölu og eiginlega óhugsandi að þetta geti klikkað, enda liðið búið að spila frábærlega í síðari umferð og hefur nú unnið átta leiki í röð í deild og í raun tíu leiki í röð séu tveir leikir í Fótbolta.net bikarnum teknir inn.
Leikið var í Nettó-höllinni í Keflavík. Það var Benjamín Jóhannes Gunnlaugarson sem kom Stólunum yfir strax á 6. mínútu en síðan urðu Reyknesingarnir fyrir því óláni að gera tvö sjálfsmörk, það fyrra á 40. mínútu og síðara markið á 45. mínútur og staðan 0-3 í hálfleik. David Bercedo gerði fjórða markið Tindastóls eftir tveggja mínútna leik í síðari hálfleik og og það var síðan Arnar Ólafs sem gulltryggði sigurinn með marki á 63. mínútu.
Þegar tvær umferðir eru eftir er Tindastóll á toppi deildarinnar með 37 stig og 30 mörk í plús. Lið Árborgar er í öðru sæti með 31 stig og Ýmir í því þriðja með 30 stig en þessi tvö lið eiga eftir að spila þrjá leiki og þar á meðal innbyrðisviðureign. Það er því ljóst að þau eru ekki bæði að ná í níu stig í lokaumferðunum.
Lið Ýmis og Árborgar mætast annað kvöld og sigri lið Árborgar þá verða Stólarnir komnir upp um deild. Næsti leikur Tindastóls er hér heima næstkomandi laugardag en þá mætir einmitt lið Árborgar í heimsókn á Krókinn.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.