Stólarnir komnir í undanúrslit Fótbolta.net bikarsins
Fótbolti.net bikarinn hélt áfram í kvöld en lið Tindastóls, sem er í öðru sæti 4. deildar tók á móti liði Kára í átta liða úrslitum en þeir Skagamenn eru aftur á móti toppliðið í 3. deildinni. Það mátti því reikna með hörkuleik og sú varð niðurstaðan því mikill hiti var í mönnum. Jafnt var að leik loknum, því þurfti að framlengja og þegar langt var liðið á framlenginguna dúkkaði Addi Ólafs upp með sigurmarkið. Stólarnir eru því komnir í undanúrslit Fótbolta.net bikarsins og mæta þar annað hvort Selfyssingum hans Bjarna, KFA eða Árbæ.
Lítið var um færi í fyrri hálfleik en Þór Llorens Þórðarson kom gestunum yfir á 22. mínútu. Benjamín Jóhannes Gunnlaugarson jafnaði á 44. mínútu og því jafnt í hálflelik. Ekki bættu liðin við mörkum í síðari hálfleik og staðan því 1-1 að loknum venjulegum leiktíma. Sigurmarkið gerði Addi síðan á 115. mínútu eftir stoðsendingu frá Domi en hann lagði upp bæði mörk Stólanna og var að öðrum ólöstuðum maður leiksins.
Mikill hiti var í mönnum eins og jafnan þegar Kári mætir með lið sitt norður í land. Þannig fékk leikmaður þeirra, Gísli Fannar Ottesen, rautt spjald í leikslok. Leikurinn var prýðileg skemmtun fyrir áhorfendur enda alltaf gaman að komast langt í bikar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.