Stólarnir í stuði gegn stemningslitlu liði KR

Arnar Björnsson var frábær í Vesturbænum í gærkvöldi. Hér er hann í ham gegn Þór Þorlákshöfn á dögunum. MYND: DAVÍÐ MÁR
Arnar Björnsson var frábær í Vesturbænum í gærkvöldi. Hér er hann í ham gegn Þór Þorlákshöfn á dögunum. MYND: DAVÍÐ MÁR

Tindastólsmenn skelltu sér í Vesturbæinn í gær þar sem tveggja punkta KR-ingar biðu þeirra. Vanalega eru rimmur liðanna spennandi og skemmtilegar en því fór víðs fjarri í gær. Leikurinn var skemmtilegur fyrir stuðningsmenn Tindastóls en Vesturbæingar hefðu sjálfsagt flestir kosið að hafa haldið sig heima fyrir framan endursýningu á Barnaby. Reyndar munaði aðeins tíu stigum í hálfleik en Stólarnir bættu vörnina í síðari hálfleik og stungu stemningslitla KR-inga af. Lokatölur 77-104.

Það má segja að Tindastólsliðið hafi verið mun betri aðilinn í leiknum og lék oft á tíðum við hvurn sinn fingur. Til dæmis var hreinlega magnað að fylgjast með samspili Sigga og Arnars en Siggi endaði stigahæstur með 23 stig og Arnar átti 13 stoðsendingar og sumar hrein listaverk. Svona er að sjálfsögðu hægt að spila þegar andstæðingurinn er úti á þekju en varnarleikur Vesturbæinga var hreinlega ekki til staðar á löngum köflum í leiknum. Það breytir þó ekki því að Stólarnir voru góðir, spiluðu hratt og fundu oftar en ekki góð skot og þá var varnarleikur gestanna oft þannig að það mátti vorkenna mótherjunum pínulítið – eða það lá við.

Stólarnir komust í 0-6 með þristum frá Ragga og Arnari en fljótlega jöfnuðu heimamenn leikinn, 9-9. Körfur frá Zoran, Sigga og Key komu Stólunum á ný í bilstjórasætið og tíu stigum munaði að loknum fyrsta leikhluta, staðan 18-28. KR-ingar héldu í horfinu fram að hálfleik en þá var enn tíu stiga munur, staðan 40-50.

Gestirnir komu ákveðnir til leiks í síðari hálfleik og Helgi Magg, þjálfari KR, varð að taka leikhlé eftir eina og hálfa mínútu en þá höfðu Stólarnir gert sjö fyrstu stigin og komnir með 17 stiga forystu. Það skilaði ekki miklu því munurinn var fljótlega orðinn tuttugu stig og ljóst að Stólarnir stefndu á að taka stigin með sér heim. Undir lok þriðja leikhluta náðu KR-ingar að rétta örlítið úr kútnum og minnkuðu muninn í 15 stig, 56-71, en Stólarnir leiddu 60-78 fyrir lokafjórðunginn. EC Matthews, sem var langbestur í liði KR, minnkaði muninn í 14 stig snemma í fjórða leikhluta en þá tóku Arnar og Siggi yfir og Stólarnir náðu 22 stiga forystu og þá var nú allur móður úr Vesturbæingum. Vlad skellti inn yngri og eldri mönnum sem sigldu heim öruggum sigri.

Lið Tindastóls var gott í gær og margir leikmenn sýndu sínar bestu hliðar. Siggi Þorsteins var stigahæstur með 23 stig á 21 mínútu og virðist óðum nálgast sitt besta form eftir meiðslavesen. Hann var vinnusamur, varði skot og skrínaði af miklum móð. Taiwo Badmus var sömuleiðis í gírnum og gerði nánast það sem honum sýndist og skoraði körfur í öllum regnbogans litum. Hann var með 22 stig. Keyshawn var með 17 stig, sex fráköst og níu stoðsendingar og Arnar 13 stig og 13 stoðsendingar. Þá var Zoran með 12 stig og fimm fráköst. Þá má nefna það að Orri Svavars átti fína innkomu, gerði fimm stig í tveimur skotum. Pétur var á bekknum en kom ekki við sögu í leiknum en það mátti skilja á Vlad fyrir leik að nokkrir leikmenn væru að stríða við veikindi eða meiðsli. EC Matthews gerði 31 stig fyrir KR en næstur honum var Þorri með 12 stig.

Nú eru Stólar komnir í stutt jólafrí en á milli jóla og nýárs, nánar tiltekið kl. 18:15 þann 29. desember, koma Íslandsmeistarar Vals í heimsókn. Þá er spurning að sýna Hlíðarendapiltum hvar Davíð keypti jólaölið...

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir