Stólarnir flugu áfram í VÍS bikarnum
Tindastóll og KR mættust í átta liða úrslitum VÍS bikarsins í Síkinu í kvöld. Vesturbæingar leika nú í 1. deild en bikarleikir vilja stundum bjóða upp á óvænt úrsli. Og þó KR-ingar hafi náð að hleypa spennu í leikinn í síðari hálfleik þá höfðu þeir aldrei forystu í leiknum og Stólarnir spýttu í lófana í fjórða leikhluta og unnu að lokum öruggan sigur. Lokatölur 83-60.
Jafnt var á öllum tölum fyrstu mínútur leiksins en síðustu mínútur fyrsta leikhluta náðu heimamenn góðum kafla og staðan 18-9 að honum loknum. Stólarnir héldu áfram að breikka forskotið í öðrum leikhluta og mestur varð munurinn 20 stig, 42-22, eftir að Geks setti niður þrist þegar ein og hálf mínúta var í hálfleik. Gestirnir gerðu hins vegar sjö síðustu stig fyrri hálfleiks og staðan 42-29 í hálfleik.
Þeir héldu uppteknum hætti í byrjun þriðja leikhluta og höfðu minnkað muninn niður í fimm stig að lokinni einni og hálfri mínútu. Pavel tók þá leikhlé og skrúfaði fyrir lekann í bili. Stólarnir komu muninum fljótt upp í tíu stig en Vesturbæingar létu ekki deigan síga og aftur náðu þeir góðu áhlaupi. Þeir minnkuðu muninn í fjögur stig, 52-48, en góðar körfur frá Ragga og Tóta sáu til þess að Stólarnir voru með heilbrigt níu stiga forskot fyrir lokafjörðunginn. Staðan 60-51. Þá kláruðu heimamenn leikinn af öryggi en gestirnir úr Vesturbænum gerðu aðeins níu stig í þeim fjórða á meðan Stólarnir gerðu 23. Það var Nesi Más sem setti punktinn ofan á i-ið með þristi í lokin.
Drungilas átti flottan leik í kvöld, gerði 19 stig og tók 12 fráköst. Gekg og Tóti voru með 15 stig hvor en Tóti var að auki með átta fráköst og tíu stoðsendingar. Þá var Arnar með ellefu stig en aðrir minna. Úrslitin þýða að lið Tindastóls hefur tryggt sér sæti í undanúrslitum VÍS bikarsins en þangað eru einnig mætt lið Stjörnunnar, Keflavíkur og Álftaness. Það verður einhver veisla í Laugardalshöllinni. Koma svo!
- - - - -
Þessi leiklýsing er skrifuð upp eftir leikskýrslu á vef KKÍ og alls óvíst að hún geti talist nákvæm. Það er því gerður fyrirvari um þvælu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.