Stólarnir aftur á sigurbraut
Tindastólsmenn fóru Fjallabaksleiðina þegar þeir innbyrtu sigur á liði Ýmis í Fagralundi í Fossvogsdal í gær. Heimamenn voru 1-0 yfir í hálfleik en Stólarnir áttu góðan endasprett og fögnuðu 2-4 sigri og eru enn á ný á toppi C-riðils í 3. deildinni.
Það var Sölvi Víðisson sem gerði mark Ýmis skömmu fyrir leikhlé en Alli jafnaði metin úr vítaspyrnu á 48. mínútu. Ingvi Hrannar kom Stólunum svo yfir á 66. mínútu en Sölvi jafnaði metin fyrir heimalinga. Stólarnir sóttu hins vegar til sigurs og á 81. mínútu kom Arnar tenniskappi Sigurðsson Stólunum yfir á ný og það var svo Kristinn Aron sem innsiglaði sigurinn með marki tveimur mínútum síðar.
Ágætur sigur á Ými því staðreynd en liðið er nokkurs konar B-afurðastöð fyrir HK og því sýnd veiði en ekki gefin. Stólarnir eru nú á toppi C-riðils með 21 stig en KB á leik til góða og getur náð Stólunum að stigum. Næsti leikur Tindastóls er hér heima á þriðjudaginn gegn Skallagrími og hefst fjörið kl. 20. Með sigri tryggja Stólarnir sér sæti í úrslitakeppni 3. deildar en ef Borgnesingar stela stigunum eiga þeir séns á að hrella Króksara.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.