Stjörnusigur í hörkuleik í Garðabænum
Stjarnan og Tindastóll mættust í Bestu deild kvenna í Garðabænum í gær. Leikið var við fínar aðstæður og leikurinn hin ágætasta skemmtun þar sem bæði lið fengu urmul færa til að skora. Með sigri hefði lið Tindastóls skotist uppfyrir Garðbæinga og þar með í sjötta sæti deildarinnar en það var hins vegar heimaliðið sem nýtti færin betur og hirtu stigin sem í boði voru. Lokatölur 2-1.
Liðin skiptust á um að sækja og viðureignin var jöfn og spennandi. Það var Aníta Ýr Þorvaldsdóttir sem gerði fyrsta mark leiksins á 21. mínútu. Stjörnustúlkur tóku þá djúpa hornspyrnu sem þær náði að skalla út í miðjan teig þar sem Aníta átti gott skot sem gestirnir náðu ekki að verjast. Aldís María fékk gott færi í fyrri hálfleik þegar hún fékk boltann frá Murr á markteigslínu fyrir nánast opnu marki en boltinn virtist skoppa upp þegar hún ætlaði að setjann þannig laust skotið fór vel yfir marki. Staðan því 1-0 í hálfleik.
Lið Tindastóls mætti vel stemmt inn til síðari hálfleiks og ógnaði ítrekað. Á 63. mínútu átti Aldís María frábær sendingu frá hægti inn á teig þar sem Murr náði ágætum klafsskalla en boltinn small í þverslánni og aftur fyrir. Mínútu síðar var Murr búin að koma sér á markaskoraralistann. Hún fékk þá boltann frá Hugrúnu sem nikkaði boltanum aftur fyrir sig inn á teig og Murr náði hörkuskoti sem Auður í marki heimastúlkna réð ekki við. Þetta var 99. mark Murr í deild og bikar fyrir lið Tindastóls. Bergljót Ásta varð fyrir slæmum meiðslum eftir rúmlega 80. mínútna leik en hún hafði komið inn á fyrir Beatriz Salas á 37. mínútu en sú virtist hafa tognað á nára. Var Bergljót borin af velli og óttast að meiðslin væru alvarleg. Þegar leikur hófst á ný sóttu Stjörnustúlkur fast að marki Tindastóls og gestirnir náðu aldrei valdi á boltanum áður en Sædís Rún Heiðarsdóttir náði hörkuneglu frá vinstra vítateigshorni og boltinn sveif framhjá Monicu markinu og í bláhornið. Þrátt fyrir ágætar tilraunir tókst liði Tindastóls ekki að jafna leikinn og svekkjandi tap því staðreynd í Garðabænum.
Stólastúlkur spiluðu fínan leik og var Donni ánægður með spilamennsku liðsins en augljóslega svekktur með meiðslin sem upp komu í leiknum og gaf í skyn að mögulega þyrfti að skoða það að styrkja liðið enn frekar en lítið væri eftir af skiptiglugganum. Báðar spænsku stúlkurnar splunkunýju fóru meiddar af velli og Bergljót sömuleiðis og sérstaklega virðast meiðslin hrjá afturliggjandi miðjumenn Stólastúlkna.
Hefði getað dottið með okkur
„Við erum mjög óheppnar að nýta ekki færin okkar og missum smá einbeitingu varnarlega með þessi mörk sem við fáum á okkur. Ætli það megi ekki segja að þetta hafi bara verið leikur sem datt með Stjörnunni en ekki okkur því þetta var nokkuð spennandi en kaflaskiptur leikur svo þetta hefði alveg getað dottið með okkur. Eigum að mínu mati fínan leik svo þá er mjög Svekkjandi að fá ekki allavega stig!“ sagði Bryndís Rut fyrirliði Stólastúlkna þegar Feykir spurði hvað hefði klikkað í leiknum.
Það kemur sér væntanlega ágætlega fyrir Tindastól að það eru tíu dagar í næsta leik og vonandi hægt að púsla þeim leikmönnum saman sem stríða við smávægileg meiðsli. Næsti leikur er á Króknum þriðjudaginn 8. ágúst en þá mæta Selfyssingar á Krókinn. Lið Tindastóls hefur þegar tapað tvívegis, nokkuð sannfærandi, gegn botnliði Selfoss í sumar, í deild og bikar, og því kominn tími til að sýna þeim selfisku hvar Davíð keypti ölið.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.