Stígandi fær frest á verklokum
Trésmiðjan Stígandi sem þessa dagana vinnur að uppsteypu nýrrar sundlaugar á Blönduósi hefur óskað eftir framlengingu á verktíma til 15. apríl 2009.
Er ástæða óskar verktakans sú að tímamörk á síðasta útboði hafi verið þröng og breyttar aðstæður í þjóðfélaginu hafi gert það að verkum að lögð var áhersla á að tryggja fastráðnu starfsfólki Stíganda vinnu. Þeir starfsmenn sem ráðnir voru erlendis frá til víðbótar vegna verksins kusu að hverfa heim aftur þegar gengi krónunnar féll í október.
Þrátt fyrir tafið hefur verkið gengið áfallalaust enda hefur tíðarfar verið verktakanum hagstætt fyrir utan snjókafla í nóvember sl.
Starfshópur um sundlaugarbyggingu samþykkti umræddan frest enda hafi bæjarstjórn tekið ákvörðun um að sundlaugin verði ekki tekin í gagnið fyrr en árið 2010 og forsendur því aðrar en þegar útboðið fór fram.
Útboðsgögn vegna næsta útboðs verða klár um næstu mánaðarmót og hvetur nefndin til þess að verkið verði boðið út í byrjun mars mánaðar með verktíma út október 2009.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.