STÍFLUEYÐIR - Veistu hvað innihaldið er eitrað?
Með þessum skrifum langar mig að minna fólk á þá slysahættu sem fylgir oft notkun hreinsiefna. Við notum þau oft daglega án þess að spá mikið í hvernig réttast sé að meðhöndla efnin. Ég vona að með þessum pistli geti ég komið í veg fyrir slys, því það var einmitt það sem henti mig þegar ég var að nota One Shot stíflueyðir, tegundin skiptir svo sem ekki miklu máli, þar sem stíflueyðir inniheldur alltaf hættuleg efni.
En þann 15. júlí síðastliðinn var ég að opna brúsa af stíflueyði, sem ég hef svo oft gert og notað í gegnum árin án sérstakrar fyrirhyggju. En það vildi svo óheppilega til að þegar ég opnaði brúsann þá einfaldlega gaus upp úr flöskunni, sem varð til þess að ég slasaði mig töluvert mikið, áverkar voru 3. stigs sýrubruni á læri og minni bruni á handarbaki og svo urðu miklar skemmdir á baðherberginu. Ég er samt mjög heppinn að hafa ekki fengið efnið í augun, að börnin mín hafi ekki verið nálægt þegar slysið átti sér stað og hversu snögg viðbrögð sjúkraflutningamanna og lögreglumanna voru. Ég hvet því fólk eindregið að fara ofur varlega með þessi efni.
Efnið sem ég notaði inniheldur t.d. 91% brennisteinssýru og aftan á brúsanum stendur að við notkun skuli viðkomandi vera í hönskum. Já, bara í hönskum! Að mínu mati er það ekki nóg, heldur þyrfti að vera í alvöru gúmmíhönskum, með plast svuntu, með öryggisgleraugu og vera í skóm því það getur skipt gríðarlega miklu máli. Munum að geyma efnin í læstu rými eða það ofarlega að börn nái ekki til þeirra. Ég hvet einnig verslunareigendur til að huga að þessum málum, þar sem þessi efni eru alltof oft í opnum hillum eða rekkum þar sem börn ná auðveldlega til.
Gleymum okkur ekki, varkárni og varúð varnar slysum.
Vil ég þakka neyðarverðinum hjá 112, lögreglu, slökkviliði, sjúkraflutningamönnum og öllu yndislega starfsfólkinu á Landspítalanum, á Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkrók og á Akureyri.
Ég ætla að láta nokkrar myndir fylgja því þær sýna greinilega hversu hættuleg þessi efni eru.
Björgvin Jónsson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.