Sterkur sigur Stólastúlkna og þrjú stig í pokann
Það var einn leikur í Bestu deild kvenna þessa helgina og hann var spilaður á Króknum í dag. Þá tóku Stólastúlkur á móti liði ÍBV úr Eyjum í því sem má kalla sex stiga leik, liðin bæði að berjast fyrir tilverurétti sínum í efstu deild. Tvær splunkunýjar spænskar stúlkur léku sinn fyrsta leik fyrir heimastúlkur og það var ekki annað að sjá í dag en að þar færu klassaspilarar. Þó það gangi hægt hjá Murr að komast í 100 mörkin fyrir Stólastúlkur þá átti hún skínandi leik í dag og lagði í raun upp öll fjögur mörk liðsins í skemmtilegum og vel spiluðum leik. Lokatölur 4-1 og Stólastúlkur færðust úr níunda sæti í það sjöunda.
Fyrir leik var Murielle Tiernan heiðruð en þessi bandaríski snillingur er búinn að spila 100 leiki fyrir lið Tindastóls og reyndar skora í þeim 98 mörk og geri aðrir betur! Mánuður er síðan hún spilaði 100. leikinn en lið Tindastóls hefur ekki spilað heima síðan 6. júní. Þá má geta þess að leikurinn var merkilegur áður en flautað var til leiks því þetta var í fyrsta sinn sem Bergrós Lilja Unudóttur dæmdi leik í efstu deild og í raun var allur dómarakvartettinn kvenkyns en það er í fyrsta sinn í sögu knattspyrnunnar á Íslandi.
Leikið var við ágætar aðstæður, þokusuddi en veður styllt og hitatölur tveggja stafa. Það voru gestirnir sem fóru betur af stað í leiknum, náðu nokkrum hættulegum sóknum á meðan að nokkuð breytt lið heimastúlkna náði áttum í nýju leikkerfi. Laufey og María Dögg úti á köntunum en Bryndís, Gwen og Marta Vives í öftustu línu. Holly Taylor O'Neill var hættuleg á hægri kantinum en allt kom fyrir ekki. Lið Stólastúlkna náði síðan betri tökum á leiknum og hélt boltanum betur en oftast áður. Þær höfðu ógnað marki gestanna áður en fyrsta markið leit dagsins ljós. Murr fékk þá boltann við miðlínu eftir innkast, náði að snúa inn á völlinn og sendi ómótstæðilega sendingu inn fyrir vörn ÍBV og þar var Melissa mætt og renndi boltanum framhjá úthlaupandi markverði gestanna og í netið. Þetta var eftir 24. mínútna leik og sjö mínútum síðar bætti Aldís María við marki. Hún fékk fyrirgjöf frá Murr, skallaði að marki en Guðný varði vel en Aldís var fyrst í boltann og setti hann af öryggi í markið. Stuðningsmenn Stólastúlkna kampakátir á pöllunum Augnablik einbeitingarleysi hleypti gestunum inn í leikinn og Viktorija Zalcikova minnkaði muninn á 34. mínútu. Stólastúlkur spiluðu vel í dag og á 40. mínútu bætti Aldís við sínu öðru marki eftir að Murr hafði rennt boltanum inn fyrir vörn gestanna og Aldís kom á alkunnum spretti og skoraði af öryggi. Staðan 3-1 í hálfleik.
Leikurinn var áfram fjörugur í síðari hálfleik en í raun voru gestirnir úr Eyjum aldrei verulega líklegir til að ógna forystu Stólastúlkna. Gwen átti skalla í samskeytin eftir hornspyrnu og skaut síðan yfir þegar hún fylgdi á eftir. Holly var áfram aðganghörðust í liði ÍBV en leik lauk á 67. mínútu þegar Hannah Cade fylgdi eftir skoti frá Murr sem varið var á línu. Fátt markvert gerðist eftir þetta og gestirnir voru ekkert nær því að klóra í bakkann þó allsherjar skiptingar færu fram hjá heimastúlkum á lokamínútum leiksins.
Lið Tindastóls átti góðan leik í dag og ljóst að tilkoma spænsku stúlknanna eykur breiddina í hópnum og gæðin í leik liðsins. Þær héldu báðar boltanum vel, sýndu góðan leikskilning og leystu oft laglega úr erfiðum stöðum. Fyrir vikið heldur liðið boltanum betur og um leið opnast völlurinn fyrir sóknina. Það verður spennandi að fylgjast með liðinu í framhaldinu en í næsta leik mæta Stólastúlkur liði Stjörnunnar sem er sæti ofar, með stigi meira en lið Tindastóls en eiga leik inni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.