Stelpurnar í 3. flokki T/H/K/F unnu sér sæti í A-riðli

Stelpurnar okkar kampakátar að leik loknum. MYND AF FBSÍÐU HVATAR
Stelpurnar okkar kampakátar að leik loknum. MYND AF FBSÍÐU HVATAR

Sameinað lið T/H/K/F (Tindastóll/Hvöt/Kormákur/Fram) í 3. flokki kvenna vann frábæran sigur í gærkvöldi þegar stelpurnar heimsóttu lið Fjölnis í Grafarvoginn reykvíska. Leikurinn fór 2-4 og það voru Skagstrendingarnir Elísa og Birgitta sem sáu um markaskorun liðsins en þær hafa sannarlega lifað fótboltadrauminn í sumar því auk þess að spila með 3. og 2. flokki T/H/K/F hafa þær verið að spila með Bestu deildar liði Tindastóls í sumar.

Samkvæmt upplýsingum Feykis kom Elísa Bríet Björnsdóttir okkar stelpum yfir á 6. mínútu en heimastúlkur jöfnuðu á 16. mínútu. Elísa  kom liði Norðurlands vestra yfir á ný rétt fyrir hlé og staðan 1-2 í hálfleik. Elísa var aftur á ferðinni og kórónaði þrennuna á 53. mínútu og það var síðan Birgitta Rún Finnbogadóttir sem gulltryggði sigurinn með fjórða marki T/H/K/F á 72. mínútu. Lið Fjölnis lagaði stöðuna á 79. mínútu en sigurinn var okkar stúlkna.

Lið T/H/K/F varð með sigrinum í efsta sæti B-riðils í annarri lotu í keppni í 3. flokki og tryggði sér þar með sæti í A-riðli. Liðið endaði með 15 stig eftir sex umferðir,  með jafn mörg stig og HK en með betri markatölu og sigur í innbyrðis viðureign. „Í fyrra var fyrirkomulagi Íslandsmótsins í 3. flokki breytt og er keppt í þremur lotum þar sem lið geta færst upp eða niður á milli riðla (deilda) eftir árangri í hverri lotu. Stelpurnar eru með eitt lið á Íslandsmótinu og hófu keppni í B riðli og eru búnar að vera i þeim riðli fyrstu tvær loturnar. Með sigrinum i kvöld komust þær upp um riðil og verða í A riðli í síðustu lotunni,“ segir í frétt á Facebooksíðu Hvatar.

Endaspretturinn er því eftir og frábært að stelpurnar spili við þær bestu í lokahnykk Íslandsmótsins og eigi því möguleika á að vinna Íslandsmeistaratitil en liðið sem vinnur lotu þrjú verður einmitt Íslandsmeistari. Það verður eflaust á brattann að sækja því bestu liðin spila í A-riðli en í íþróttum er allt mögulegt. Koma svo!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir