Steini, Bragi og Elsa aftur á svið
Í Sæluvikuleikritinu Frá okkar fyrstu kynnum stíga aftur á svið þrír leikarar sem um áratugabil settu mikinn svip á sýningar Leikfélags Sauðárkróks. Það eru þau Steini Hannesar, Bragi Har og Elsa Jóns.
Hafsteinn Hannesson lék fyrst með LS 1951, púka í Skugga-Sveini. Á næstu áratugum urðu hlutverkin mörg og fjölbreytt. Lausleg athugun bendir til þess að hann muni vera sá karlleikari sem flest hlutverk hefur leikið hjá félaginu. Síðast var hann á fjölunum í afmælisverkefni þess 1991, Köttur á heitu blikkþaki. Hann átti einnig eftirminnilega innkomu 1997 í revíu sem UMF Tindastóll setti upp.
Bragi Haraldsson lék fyrst með LS 1961 í Er á meðan er, og var þar rukkari. Síðan urðu hlutverkin mörg og alltaf var hægt til Braga að leita bæði um leik og önnur störf fyrir félagið. Hann var virkur leikari langt fram á níunda áratuginn. Það mun nú komið talsvert á annan áratug síðan hann steig síðast á svið.
Elsa Jónsdóttir lék fyrst með félaginu 1973 í þeim eftirminnilega gamanleik Tehúsi ágústmánans. Næstu árin var Elsa leikari í nær öllum þeim verkefnum sem félagið setti á svið, en hún er sú leikkona sem flest hlutverk hefur leikið hjá félaginu. Hún var síðast með LS í Galdra-Lofti í Sæluviku árið 2002.
Eins og fyrr segir stíga þau þrjú nú aftur á svið í afmælisverki LS, Frá okkar fyrstu kynnum - 120 ár í sögu leikfélags, sem verður frumsýnt 26. apríl nk.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.