Stefnt að rökkurgöngum í Glaumbæ helgina fyrir jól
Það er ljúft að leggja leið sína í Glaumbæ á aðventunni og hverfa einhverjar aldir aftur í tímann. Stemningin einstök í stilltu dimmbláu vetrarrökkrinu, stjörnurnar og ljósin á bæjunum blikandi í fjarska. Í JólaFeyki, sem kom út í lok nóvember tjáði, Berglind Þorsteinsdóttir, forstöðumaður Byggðasafns Skagfirðinga, lesendum að stefnt væri á að fara rökkurgöngur í gamla bænum – væntanlega dagana 17. og 18. desember – ef aðstæður í samfélaginu og sóttvarnarreglur leyfa. JólaFeykir spurði Berglindi líka aðeins út í jólahald hennar.
Berglind býr á Glóðeyri í Blönduhlíð ásamt eiginmanni sínum og þremur börnum. Hvernig ætli forstöðumaður Byggðasafns Skagfirðinga fagna jólunum? „Síðustu ár hefur skapast sú hefð hjá tengdafjölskyldunni að halda jólin saman í Kakalaskála, þar sem systur mannsins míns og fjölskyldur þeirra koma norður,“ segir Berglind. „Stórt jólatré er sótt í Kúskerpi og komið fyrir í skálanum. Krakkarnir skreyta tréð og skálann hátt og lágt og um það bil hundrað pökkum er síðan komið fyrir við tréð. Eftir kvöldverð á aðfangadagskvöld er gærum raðað á gólfið og stólum raðað umhverfis tréð. Pakkarnir eru opnaðir og síðan er leikið og spjallað fram eftir kvöldi í notalegheitum. Jóladagur er slökunardagur, allir í náttfötum eða kósígöllum fram eftir degi og borðað, leikið, lesið og notið samverustunda frá morgni til kvölds.“
Sumardagur í Glaumbæ
Í haust gaf Byggðasafn Skagfirðinga út gullfallega barnabók, Sumardagur í Glaumbæ, sem er prýdd vatnslitamyndum franska listamannsins Jérémy Pailler en textinn er eftir Berglindi. Sögusviðið er Glaumbær á seinni hluta 19. aldar en sagan er að mestu byggð á frásögnum af fólki sem bjó í Glaumbæ og Skagafirði á þeim tíma.
Í bókinni fá lesendur að vera með Sigga litla, Jóhönnu vinkonu hans og hundinum Ysju einn dag í lífi þeirra. Bókinni er ætlað að veita innsýn í daglegt líf Íslendinga á árum áður út frá sjónarhóli barns. Bókin kom út á fjórum tungumálum; íslensku, ensku, frönsku og þýsku og því alveg tilvalin í jólapakka. Öll fjölskyldan ætti að hafa gaman af bókinni en heppilegust er hún fyrir lestrarhesta á aldrinum 3-12 ára.
Í kjölfar útkomu Sumardags í Glaumbæ var sett upp sölusýning í Áshúsi á myndunum í bókinni. Sýningunni lauk á sama tíma og sumaropnunartíma safnsins, 21. október. „Nokkur myndverk bókarinnar eru þó enn óseld og eru tilvalin jólagjöf og framtíðareign fyrir fagurkera,“ sagði Berglind þegar JólaFeykir hafði samband við hana. Hægt er að skoða myndirnar, ásamt öðru fallegu handverki og gjafavöru, í litlu safnbúðinni í Glaumbæ. „Ef einhver mynd er í uppáhaldi er hægt að senda okkur fyrirspurn um hvort hún sé óseld á byggdasafn@skagafjordur.is,“ segir Berglind.
Alltaf haldið mikið upp á Jólaköttinn með Björk
Var einhver bók ómissandi í desember þegar þú varst krakki? „Snúður og Snælda í jólaskapi eiga sérstakan stað í hjarta mínu. Enda á ég hund og nokkra ketti í dag.“
Hvert var jólalag unglingsáranna? „Sko, jólalag æsku minnar var Last Christmas með Wham! og kemur mér í jólaskapið. Ég hef alltaf haldið mikið upp á Jólaköttinn með Björk Guðmundsdóttur en jólalög unglingsáranna myndi ég segja að hafi verið Christmastime með Smashing Pumpkins og Stay Another Day með East 17 þegar gelgjuskeiðið stóð sem hæst,“ segir Berglind að lokum.
Því miður verður ekki hægt að komast í kaffi og kruðerí í Áshúsi nú í desember en þar standa yfir framkvæmdir; verið að mála og uppfæra sýningar. Þeir sem eru áhugasamir um rökkurgöngurnar eru hvattir til að fylgjast með Facebook-síðu safnsins þegar nær dregur.
- - - - -
Uppfærð grein úr JólaFeyki 2021 sem kom út 24. nóvember sl.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.