Stefnir í naglbíta í botnbaráttu 2. deildar
Það var mikilvægur leikur í neðri hluta 2. deildarinnar í knattspyrnu á Blönduósi í gær en þá tók Kormákur/Hvöt á móti liði Ægis úr Þorlákshöfn. Fyrir leik voru heimamenn sæti og stigi ofar en lið Ægis en nú þegar langt er liðið á tímabilið er hvert stig dýrmætt í botnbaráttunni. Það voru því miður gestirnir sem gerðu eina mark leiksins þegar um stundarfjórðungur var til leiksloka og skelltu sér upp fyrir Húnvetninga í deildinni og talsverð pressa nú komin á lið Kormáks/Hvatar.
Heimamenn léku undan vindi í fyrri hálfleik en þeim tókst ekki að nýta sér þann meðbyr. Oft vill það þó vera þannig að það er betra að spila boltanum á móti vindi en það gekk heldur ekki sem skyldi. Það var því leiðinda kinnhestur sem Húnvetningar máttu þola þegar Björn Rúnar Jónínuson skoraði fyrir gestina eftir varnarmistök á 76. mínútu.
Í spjalli við Feyki í síðustu viku sagðist Ingvi Rafn þjálfari Kormáks/Hvatar vilja sjá lið sitt taka sex stig í næstu tveimur leikjum sínum, gegn KFG og Ægi sem voru á svipuðum slóðum í deildinni, og tryggja þannig væntanlega sæti sitt í deildinni. Uppskeran er hins vegar aðeins eitt stig og liðið er nú með 19 stig þegar fjórar umferðir eru eftir. Þeir leikir eru gegn fjórum af fimm efstu liðum deildarinnar.
Fyrir neðan lið Kormáks/Hvatar eru KFG með 17 stig, KF með 15 og Reynir Sandgerði með 13. Kapparnir í Fjallabyggð, sem oft hafa bjargað eigin skinni á haustdögum, eiga heimaleik gegn Reyni í næstu umferð og þá gæti heldur betur hlaupið spenna í botnbaráttuna. Húnvetningar þurfa því góðan stuðning í næstu leikjum og alla á árarnar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.