Stefnir í hörkumót á laugardag
Ungkarlafélagið Molduxar á Sauðárkróki mun laugardaginn 18. apríl standa fyrir árlegu körfuknattleiksmóti sínu. 10 lið hafa tilkynnt þáttöku sína og ríkir gríðarleg stemning í herbúðum Molduxa sem taka mótið alvarlega.
Á heimasíðu ungsveina Molduxa kemur fram að þar á bæ sé ekkert kreppukjaftæði heldur fái allir keppendur splunkunýja boli merkta mótinu eins og venjulega.
Þá verður á mótinu sjálfu veitingasala þar sem hægt verður að kaupa helstu orkugjafa fyrir svona átök ásamt bæjarins besta límonaði og þegar keppni er lokið verður verðlaunaafhending í betri stofunni þar sem meistarar mótsins verða heiðraðir og Molduxar bjóða upp á laufléttar veitingar eins og þeim er einum lagið. Eftir afhendinguna verður sundlaugin opnuð fyrir keppendur þar sem hægt verður að lina auma vöðva og liði í heitu pottunum og safna orku fyrir aðal átökin, því um kvöldið verður síðan samkoma á Mælifelli þar sem boðið verður upp á hlaðborð og hljómsveit við hæfi fyrir aðeins kr.2900 pr. mann. - Skemmtiatriðin verða að sjálfögðu með hefðbundnu sniði þar sem hvert lið kemur með sitt atriði og eins og venjulega þá verða þar eintóm heimasmíðuð gullkorn.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.