Starfsfólk Árskóla hvetur Skagafjörð til að sýna kennurum sínum stuðning

Árskóli á Sauðárkróki.
Árskóli á Sauðárkróki.

Starfsfólk Árskóla harmar það að sveitarfélagið Skagafjörður hafi ætlað sér að halda starfsemi leikskólans Ársala gangandi í þeim verkfallsaðgerðum félagsmanna KÍ sem þar starfa.

Við teljum það ekki réttmætt að halda deildum opnum með skertri starfsemi þegar deildarstjóri, sem ber ábyrgð á faglegu starfi hverrar deildar, er ekki til staðar. Slík aðgerð af hálfu sveitarfélagsins gefur skýr skilaboð um að fagmenntun starfsfólks sé ekki metin að verðleikum og sýnir vanvirðingu gagnvart námi kennara og mikilvægi þeirra í leikskólastarfinu.

Við leggjum áherslu á að ófaglært starfsfólk eða starfsfólk með aðra menntun en kennaramenntun gegnir mikilvægu hlutverki í leikskólastarfinu, og drögum á engan hátt úr hæfni þeirra til að starfa með börnunum. Hins vegar eru kennarar sem starfa undir merkjum KÍ ómissandi í leikskólastarfi, enda er sveitarfélögum samkvæmt lögum skylt að ráða fagmenntaða leikskólakennara eftir fremsta megni.

Starfsfólk Árskóla hvetur sveitarfélagið Skagafjörð til að sýna kennurum sínum stuðning með því að fylgja verklagsreglum KÍ og loka þeim deildum sem eiga sannarlega að vera lokaðar á meðan á verkfalli stendur.

Áfram kennarar!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir