„Staðan varð því miður þannig í byrjun árs að ég þurfti að hugsa um meira en körfubolta“
Það styttist í að kvennalið Tindastóls spili í fyrsta sinn á þessari öld í efstu deild körfuboltans, sjálfri Bónus deildinni. Eflaust hafa einhverjir velt því fyrir sér hvernig á því standi að Eva Rún Dagsdóttir, fyrirliði liðsins til tæpra þriggja ára og þar að auki dóttir Dags formanns körfuknattleiksdeildar og systir Hlífars Óla kynnis í Síkinu, skipti yfir í Selfoss á þessum tímapunkti.
Eva er 21 árs gömul, Skagfirðingur í húð og hár, og hefur verið fastinn í liði Tindastóls síðustu vetur þrátt fyrir ungan aldur, enda mikil íþrótta- og baráttukona. Hún lenti í veikindum í byrjun árs og missti af mörgum leikjum Stólastúlkna. Á uppskeruhátíð körfuknattleiksdeildar í vor var hún engu að síður valin besti leikmaður meistaraflokks kvenna sem segir nú kannski meira en margt. Feykir hafði samband við Evu Rún og byrjaði á að spyrja hvað hún væri að gera á Selfossi. „Ég er að vinna í verslun sem heitir Motivo, æfa körfubolta með Selfossi en fyrst og fremst að huga að sjálfri mér og njóta. Ég stefni svo á að byrja í háskólanámi á næsta ári að læra sálfræði.“
Hvað kemur til að þú skiptir í Selfoss nú þegar lið Tindastóls spilar í efstu deild í fyrsta skipti á öldinni? „Það er góð spurning og ég skil vel að margir velti því fyrir sér þar sem Tindastóll hefur átt allan minn hug og hjarta síðastliðin ár. En staðan varð því miður þannig í byrjun árs að ég þurfti að hugsa um meira en körfubolta og tóku við mjög erfið andleg veikindi. Ástandið varð þannig að það var ekkert annað í stöðunni en að fara í veikindaleyfi og ég náði því ekki að klára tímabilið í vor. Eins erfitt og það var að missa af körfuboltanum þá komst sú hugsun varla að fyrir hræðilegu veikindunum sem ég var að glíma við – og er enn í dag. Ánægjulegri fréttir eru þær að ég og kærasti minn keyptum okkur íbúð á Selfossi í vor. Ég hafði planað að flytja suður áður en Tindastóll fékk þessar óvæntu fréttir að fá sæti í efstu deild. Það var auðvitað erfitt og ömurleg tímasetning að flytja burt núna og missa af þessu ótrúlega spennandi verkefni! En ég var bara á þeim stað að ég vissi ekki einu sinni hvort ég gæti verið í körfubolta í vetur. Það er því alls ekki þannig að ég sé að skipta yfir í Selfoss frá Tindastól heldur er ég að setja mína heilsu í fyrsta, annað og þriðja sæti og leyfa körfuboltanum að fylgja með.“
Sástu fyrir þér að liðið gæti farið upp í efstu deild síðasta vetur? „Já, alveg klárlega. Ég hef séð það fyrir mér og ætlað mér að vinna deildina með liðinu mínu síðustu þrjú ár.“
Er ekki erfitt að skipta um lið á þessum tímapunkti? „Jú, það er virkilega erfitt og búið að vera mjög skrýtið! Ég er búin að vera með heimþrá, bakþanka og sakna ykkar allra þarna fyrir norðan ótrúlega mikið!!! En staðreyndin er sú að það eru kostir og gallar við allt, og það er líka búið að vera spennandi að prófa eitthvað nýtt, í nýju umhverfi og kynnast nýju fólki.
Var formaður körfuknattleiksdeildar Tindastóls til í að skrifa upp á félagaskiptin? „Formaður kkd. Tindastóls hefur verið óvenju skilningsríkur með að ég yfirgefi liðið, enda búinn að ganga í gegnum seinustu mánuði með mér. En auðvitað saknar hann mín alveg ógurlega. Það var eiginlega erfiðara að fá samþykki frá kynni Tindastóls en það tókst á endanum og þeir báðir styðja mig í mínum nýju verkefnum,“ segir Eva Rún og bætir við að hana langi að nýta tækifærið og segja að hún sé ótrúlega stolt af þeim báðum og þeirra störfum fyrir félagið.
Einhver skilaboð frá þér til Tindastólsliðsins? „Ég er auðvitað í sambandi við stelpurnar mínar ennþá og allt körfuboltasamfélagið. Ég er ekki orðin Selfyssingur þó ég sé flutt. En ég er mjög spennt að fylgjast með liðinu „mínu“ í vetur og hlakka til að mæta á sem flesta leiki, bæði hjá kk og kvk. Ég sakna ykkar óendanlega mikið en ég verð dugleg að koma heim. Áfram Tindastóll!“
Feykir óskar Evu Rún góðs gengis í sínum verkefnum.
Stólastúlkur bregða á leik í myndatöku . MYND: DAVÍÐ MÁR
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.