Sprækir Álftnesingar spóluðu yfir Stóla

Arnar Björns spilaði rúmar 20 mínútur í gær eftir erfið meiðsli en var engu að síður stigahæstur með 14 stig hjá Stólunum. MYND: SIGURÐUR INGI
Arnar Björns spilaði rúmar 20 mínútur í gær eftir erfið meiðsli en var engu að síður stigahæstur með 14 stig hjá Stólunum. MYND: SIGURÐUR INGI

Tindastólsmenn tóku á móti liði forseta Íslands, Áltftanesi, í Síkinu í gær og að sjálfsögðu var Guðni mættur. Því hefur stundum verið haldið fram að Stólarnir mæti jafnan til leiks eftir áramót haldnir illvígri hátíðaþinnku, sama hverjir eru í liðinu, og sú var raunin í gær þó ekki megi gera lítið úr frammistöðu gestanna frá Álftanesi sem eru firnasterkir. Frammistaða Stólanna var hins vegar langt undir pari og sóknarleikurinn dapur. Gestirnir leiddu nær allan leikinn og eftir að Tóti minnkaði muninn í eitt stig í fjórða leikhluta þá pökkuðu þeir meisturunum okkar saman og lönduðu sterkum sigri. Lokatölur 68-80.

Allir Stólar voru mættir til leiks í gær, að minnsta kosti líkamlega, og áttu sennilega einhverjir stuðningsmenn því von á að sjá meistarana hnykkla vöðvana og sýna nýliðunum í tvo heimana. Það eru þó engir aukvisar í liði Kjartans Atla sem höfðu endurheimt Hössa og þá reyndist um on-leik að ræða hjá Hauki Helga. Lið Álftaness náði strax undirtökunum og leiddi 20-22 að loknum fyrsta leikhluta. Drungilas jafnaði leikinn, 25-25, en Hössi gerði þá fimm stig í röð og gestirnir héldu frumkvæðinu það sem eftir lifði leiks. Þeir voru átta stigum yfir í hálfleik, 37-45.

Stólarnir náðu upp góðri vörn í þriðja leikhluta og gestirnir skoruðu þá aðeins níu stig. Stólunum gekk ekki vel að nýta sér tækifærin sem sterkur varnarleikur skapaði en höfðu þó minnkað muninn í tvö stig, 52-54, fyrir lokafjórðunginn. Þá voru örugglega einhverjir sem hugsuðu með sér að Stólarnir gætu skellt í góðan endasprett og stolið sigrinum. Tóti minnkaði muninn í eitt stig, 57-58, en næstu níu stig voru gestanna og munurinn tíu stig þegar fimm mínútur voru til leiksloka. Í gærkvöldi fann enginn leikmanna Tindastóls fjölina sína og þá eru alvöru endasprettir ólíklegir og sú var einmitt raunin í þessum leik.

Það var Arnar Björnsson sem var stigahæstur heimamanna með 14 stig en næstur honum en næstur honum kom Þórir með 13 stig. Geks var síðan með 11 stig og þá má geta þess að þetta var 100. leikur Arnars í röð þar sem hann setur í það minnsta einn þrist. Haukur Helgi var stigahæstur gestanna með 22 stig og Douglas Wilson var með 18 stig en báðir voru þeir með tíu fráköst.

Slæmt tap því staðreynd sem var nú alls ekki það sem kokkurinn mælti með í jafnri og spennandi toppbaráttur. Nú er að hrista af sér vonbrigðin og koma með toppstykkið í toppstandi í næsta toppleik Tindastóls sem verður í Keflavík.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir