Spjallað við Ómar Braga og Pálínu Ósk um Unglingalandsmótið á Króknum
„Unglingalandsmótin eru fjölskylduhátíð þar sem alls konar íþróttir eru í fyrsta sæti. Mótin eru haldin árlega og að þessu sinni er mótið á Sauðárkróki,“ segir Ómar Bragi Stefánsson, framkvæmdastjóri Landsmóta UMFÍ, þegar Feykir forvitnast um Unglingalandsmót UMFÍ sem fram fer um verslunarmannahelgina. Ómar Bragi hefur fengið liðsstyrk en Pálína Ósk Hraundal er verkefnastjóri mótsins en þetta er í þriðja sinn sem þau vinna saman að ULM á Króknum.
Mótið er ætlað ungmennum á aldrinum 11-18 ára en það er einnig heilmikið í boði fyrir börn sem eru yngri og eins fyrir foreldra. Það geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi á mótinu. Mótið fer fram eins og alltaf um verslunarmannahelgi og hefst á fimmtudegi en mótsslit eru síðan á sunnu-dagskvöldinu með brekkusöng og flugeldasýningu.
Er skráning á ULM 2023 hafin? „Skráning er hafin á heimasíðu okkar umfi.is og við vonum að nýtt skráningarkerfi auðveldi skráninguna. Ef vandamál koma upp má alltaf hafa samband við Þjónustumiðstöð UMFÍ í síma 568 2929.“
Verður bryddað upp á nýjum og spennanndi greinum á mótinu á Króknum? „Mótin breytast alltaf eitthvað á milli ára, nýjar greinar koma inn og dagskráin verður betri og betri. Að þessu sinni eru verulegar breytingar á keppnisfyrir-komulagi fjögurra stórra greina; knattspyrnu, körfu-bolta, grasblaki og grashand-bolta. Keppni í þessum grein-um fer fram á einum degi í hverri grein, það verður spilað þétt og af ákefð. Með þessu fyrirkomulagi verður mun einfaldara fyrir keppendur að skrá sig í fleiri greinar og prófa eitthvað nýtt.“
Dagskráin komin inn á heimasíðu mótsins
Spurð um í hvaða greinar þau mundu skrá sig ef þau væru að taka þátt í ULM sagðist Ómar Bragi reikna með að hann myndi skrá sig í fótbolta, grasblak, kökuskreytingar og pílukast svo eitthvað sé nefnt en Pálína sagðist skrá sig í frisbígolf, sund, frjálsar íþróttir og hjólreiðar.
Hvað verður í boði til skemmtunar annað en þátttaka í fjölbreyttum greinum? „Dagskráin okkar er komin inn á heimasíðu mótsins; umfi.is, og þar má sjá þetta allt. En fjölmargt er í boði, t.d. hlaup um Skógarhlíðina og á sandströndinni, fótboltafjör fyrir krakka 10 ára og yngri, leikja-garður, bandý, sandkastalagerð, fimleikafjör, football freestyle vinnubúðir, sundleikar barna, badminton, barnaskemmtun, sjósund, frjálsíþróttaleikar barna, sundlaugarpartý, blindrabolti, listasmiðja, hæfi-leikasvið og tónlist öll kvöldin.
Hvað kostar að taka þátt í mótinu? „Aðeins þeir sem eru 11-18 ára og ætla að keppa á mótinu greiða eitt gjald, kr. 8.900.- Aðrir greiða ekki krónu. Hinsvegar hefur UMSS ákveðið að bjóða öllum krökkum á aldrinum 11-18 ára sem búa í Skagafirði frítt á mótið sem eru frábærar fréttir. Það er líka mikilvægt að nýta sér þetta og skrá sig í eina eða fleiri keppnisgreinar og vera með í þessari skemmtun.“
Hverju þurfa keppendur helst að muna eftir? „Allir sem koma á mótið koma á sínum forsendum. Skrá sig í það sem þá langar til og njóta mótsins. Það mikilvægasta er að koma í góðu skapi og brosandi og vera þannig alla mótsdagana.
Er Krókurinn vel í stakk búinn til að taka á móti gestum Unglingalandsmótsins? „Sauðárkrókur er frábær mótsstaður fyrir svona mót. Allt nánast á einum stað, í hjarta bæjarins. Tjaldsvæðið er á svokölluðum Nöfum ofan við aðal íþróttasvæðið og í göngu-færi við allt.“
Ómar Bragi segir að það þurfi um 450 sjálfboðaliða við undirbúning og framkvæmd mótsins og hvetur hann fólk til að hafa samband við UMSS og skrá sig sem sjálfboðaliða því handtökin eru fjölmörg og fjölbreytt.
„Við hvetjum alla til að leggjast á eitt og gera mótið sem glæsilegast. Taka vel á móti þeim fjölmörgu gestum sem við eigum von á og taka þátt í gleðinni. Koma á svæðið og fylgjast með flottu ungu fólki í leik og njóta helgarinnar,“ bætir Pálína við. Þess má geta að Unglingalandsmótin hafa verið haldin um 30 sinnum en þetta er 18 mótið sem Ómar Bragi stjórnar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.