Söluverðmæti íslenskra minkaskinna milljarður í ár
Vísir.is segir frá því í dag að söluverðmæti minkaskinna frá íslenskum loðdýraræktendum í ár mun að minnsta kosti nema einum milljarði króna. Fyrir tæpum áratug var talið að þessi búgrein ætti vart framtíð fyrir sér.
Jafnframt segir á Vísi að alls voru íslensk minkaskinn seld fyrir 370 milljónir króna á uppboði hjá Kopenhagen Fur í lok síðasta mánaðar. Um var að ræða þriðja uppboð ársins en á hinum tveimur seldust íslensk minkaskinn fyrir rúmlega 400 milljónir króna. Tvö uppboð verða haldin fyrir árslok og mun verðmæti íslenski skinna á þeim verða að minnsta kosti 200 milljónir króna.
Björn Halldórsson formaður Sambands íslenskra loðdýraræktenda segir að metverð hafi fengist fyrir íslensku minkaskinnin þar sem af er þessu ári og á því síðasta. Þetta er einkum vegna mikillar eftirspurnar Kínverja á uppboðunum í Kaupmannahöfn. Það sem gerðist á júní uppboðinu var að rússneskir kaupendur komu aftur inn á markaðinn sem og Suður-Kóreumenn. Þetta þýðir að búist er við háum verðum á minkaskinnum næstu tvö árin.
Íslensk loðdýrarækt lenti í miklum erfiðleikum um aldamótin síðustu og var henni vart hugað líf sem búgrein á þeim tíma. 22 framleiðendur lifðu hremmingarnar af og framleiða nú 160.000 til 180.000 skinn árlega. Miðað við að framleiðslukostnaður á hvert skinn sé um 4.000 kr. og meðalverð um 7-8.000 kr. mun hver framleiðandi í ár fá að meðaltali um 20 milljónir króna í hagnað af starfsemi sinni.
Björn Halldórsson segir að miðað við eftirspurnina eftir minkaskinnum þessa stundina gætu allt að 200 minkabú þrifist í landinu.
Heimild: Vísir.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.