Sögulegt tækifæri
Á kjördegi stöndum við frammi fyrir sögulegu tækifæri til breytinga á Íslandi. Ég kalla það sögulegt tækifæri því í dag getum við ákveðið að hafna þeim stjórnarháttum sem hér hafa verið viðhafðir í 26 ár af síðustu 30 og velja í staðinn stjórnvöld sem eru tilbúin til að ráðast í stóru verkefnin framundan með almannahagsmuni að leiðarljósi.
Við getum valið okkur stjórnvöld sem hugsa um venjulegt fólk. Fólk sem er í daglegu streði að reyna að veita börnum sínum betra líf en er einni bilaðri þvottavél frá því að lenda í vandræðum um mánaðamótin. Við getum valið okkur stjórnvöld sem eru tilbúin til að lækka skattbyrði barnafólks, öryrkja og eldra fólks og jafna kjörin í landinu. Stjórnvöld sem geta ekki litið fram hjá því að 41% öryrkja búa við fátækt í dag og stórir hópar eldra fólks hafa verið skildir eftir ár eftir ár.
Við getum valið okkur stjórnvöld sem ávallt munu setja almannahag framar sérhagsmunum, eru tilbúin að ráðast gegn stefnuleysi og vanfjármögnun í heilbrigðiskerfinu og vilja ráðast í uppbyggingu innviða og almannaþjónustu um allt land.
Ef kjósendur vilja slík stjórnvöld, þá verða þeir að leggjast á árar með Samfylkingunni, því Samfylkingin er sá flokkur sem líklegastur er til að leiða saman aðra og betri ríkisstjórn en þá sem nú situr. Það skiptir nefnilega ekki endilega máli hver stjórnar, heldur fyrir hverja er stjórnað og með hverjum er stjórnað og það þarf að stjórna þannig að allir Íslendingar eigi sína hlutdeild í landi tækifæranna.
Þess vegna er best að kjósa Samfylkinguna.
Valgarður Lyngdal Jónsson
Höfundur er oddviti Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.