„Small allt einhvern vegin saman í byrjun móts“
Blönduósingurinn Arnar Freyr Arnarsson kom sigursæll heim frá Rússlandi þar sem U19 landslið Íslands hreppti bronsið á Heimsmeistaramóti í handknattleik 7. – 20. ágúst. Liðið tapaði einungis einum leik á mótinu og þykja leikmenn þess afar efnilegir og sagðir hæglega gæta tekið við keflinu þegar kynslóðaskipti verða í landsliðinu.
Aðspurður um hverju hann þakki þetta góða gengi liðsins svarar Arnar Freyr að það sé klárlega liðsheildin og þjálfarateymið.
„Þetta small allt einhvern vegin saman í byrjun móts. Það er svo gaman að vera með svona skemmtilegum og góðum strákum, við erum allir mjög góðir vinir sem skiptir miklu máli í svona löngu móti,“ segir hann.
Arnar Freyr segir strákana hafa lagt upp með að taka einn leik í einu og að sama skapi sett sér eitt markmið í einu, hið fyrsta var að komast upp úr riðlinum sem var gríðarlega erfiður, að sögn Arnars Freys. „Þjálfarinn, Einar Guðmundsson, kom alltaf með ræðu fyrir leik sem tók alla pressuna af okkur. Hann sagði okkur bara að hafa gaman - það mætti aldrei gleymast.“
Feykir ræddi við Arnar Frey um keppnina og tilfinninguna sem fylgdi því að komast á verðlaunapall heimsmeistaramótsins. Viðtalið má lesa í blaðinu sem kom út í dag.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.