Slæmt ástand í vegamálum landsmanna
Skagfirðingar og samgöngumál voru nokkuð í fréttum nú um helgina. Þannig sagði Morgunblaðið frá því að nú væri svo komið að munni Strákaganga væri í lausu lofti og þá sagði Magnús Svavarsson, framkvæmdastjóri Vörumiðlunar, í viðtali við Moggann að Hringvegurinn væri ónýtur að stórum hluta.
Hjónin Halldór Gunnar Hálfdánarson og María Númadóttir á Molastöðum í Fljótum þekkja Siglufjarðarveg mörgum betur en eins og Feykir hefur áður sagt frá þá hefur Halldór Gunnar hefur myndað svæðið töluvert á undanförnum árum. María rekur bókhaldsskrifstofu á Siglufirði og fer því Siglufjarðarveg og göngin flesta daga.
Þau segja í viðtali við Morgunblaðið að töluverðar hreyfingar hafi átt sér stað í og við vegstæðið og segir María að þróunin hafi verið mjög hröð á undanförnum tveimur árum. Finnst henni nánast sem hún sjái breytingu á veginum daglega. „Ég upplifi aðeins meira óöryggi en ég gerði fyrir kannski fimm árum þegar ég sé þessar hröðu breytingar,“ segir hún. Hún lýsir ástandinu sem svo að vegurinn sé að molna undan gangamunna Strákaganga Fljótamegin og munninn sé í raun í lausu lofti. Segir hún að sprungur hafi myndast í og við veginn og af og til myndist misstórar holur og skörð í hann.
Það mætti spyrja sig hvort hér sé hreinlega beðið eftir að stórslys eigi sér stað og ljóst að göng úr Fljótum i Siglufjörð geta ekki beðið.
Vegir ekki fengið nauðsynlegt viðhald
Sigurður Bogi, blaðamaður Morgunblaðsins, spjallar við Magga Svavars í helgarblaðinu og segir hann að hringvegurinn alveg frá Hvalfjarðargöngum og norður í Skagafjörð sé ónýtur að stórum hluta, þótt einhverjir smáspottar séu í lagi. Vegir eru að gefa sig undan þunga. Leiðin um Stafholtstungur og Norðurárdal í Borgarfjörð er ónýt, Hrútafjörðurinn og stærstur hluti af Húnavatnssýslunum.
Maggi tiltekur enn fleiri vegi í viðtalinu en hann vil meina að stóra breytan í þessu öllu varðandi samgöngurnar sé að vegir landsins hafa á síðastliðnum 15 árum, eða alveg frá efnahagshruninu, ekki fengið nauðsynlegt viðhald vegna ónægra fjárveitinga. „Á sama tíma hefur umferðin aukist mikið og þar koma til flutningar á afurðum lands og sjávar og ferðamennska, sem ég tel raunar að skili minnu í þjóðarbúskapinn en ef er látið. Þarna er því einhver skekkja í áherslum stjórnvalda, þannig að mikilvægir innviðir landsins gefa eftir. Helstu leiðir út frá borginni, svo sem á Kjalarnesinu, Reykjanesbraut og vegurinn austur fyrir fjall, eru komnar í lag en víða annars staðar þarf að gera miklar úrbætur,“ segir Maggi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.