Skyttur í fyrri, skussar í seinni

Keyshawn var með 12 stig í gær en hitti engu 3ja stiga skoti í fjórum tilraunum. MYND: DAVÍÐ MÁR
Keyshawn var með 12 stig í gær en hitti engu 3ja stiga skoti í fjórum tilraunum. MYND: DAVÍÐ MÁR

Tindastólsmenn sóttu lið Stjörnunnar heim í Umhyggjuhöllina í Garðabæ í gær í töluvert mikilvægum leik um sæti í úrslitakeppninni í vor, enda liðin verið í svipuðu ströggli í vetur. Stólarnir voru stórfínir í fyrri hálfleik, þá sér í lagi síðustu fimm mínúturnar, og leiddu með 15 stigum en þeir mættu eiginlega aldrei til leiks í síðari hálfleik. Ertu ekki að grínast hvað liðið var dapurt? 20 stig í heilum hálfleik og Garðbæingar gengu á lagið. Lokatölur 79-68 og Stjarnan með betri innbyrðis stöðu.

Arnar hóf leik með kærkomnum þristi og Stólarnir voru með frumkvæðið í fyrsta leikhluta. Þriggja stiga nýtingin hefur verið slöpp nú eftir áramótin en fyrstu þrjár körfurnar komu utan landhelginnar. Stólarnir enduðu reyndar fyrri hálfleik með tíu þrista og leikmenn virtust búnir að finna mójóið á ný. Þristur frá Pétri sá til þess að Stólarnir leiddu að loknum fyrsta leikhluta, 16-17, en Dagur Kár kom sínum mönnum yfir í byrjun annars leikhluta. Þá komu níu stig frá Stólunum og staðan 18-26. Stjörnumenn klóruðu í bakkann og minnkuðu muninn í þrjú stig upp úr miðjum leikhlutanum og enn munaði þremur stigum þegar þrjár og hálf mínúta var til leikhlés, staðan 32-35. Stólarnir léku síðan á alsoddi fram að hléi, spiluðu flotta vörn, rændu boltanum ítrekað og skoruðu á hinum endanum. Arnar, hinn litríki þjálfari Stjörnunnar, reitti hár sitt á þessum kafla og virtist síðan öllum lokið þegar flautað var til hálfleiks og hans menn skyndilega 15 stigum undir. Staðan 33-48.

Eitthvað hefur kappinn sagt fallegt í hálfleik því hans menn komu grimmir til leiks í síðari hálfleik og voru búnir að minnka muninn í sjö stig eftir eina og hálfa mínútu. Stólarnir virkuðu aftur á móti kærulausir í sínum sóknaraðgerðum og voru alltaf skrefi á eftir í vörninni. Þeir náðu aðeins að hægja á völtunarprógrammi heimamanna og héngu enn á forystunni þegar þriðji leikhluti kláraðist. Staðan 55-59.

Stuðningsmenn Stólanna segjast vanir slæmum þriðja leikhluta en sjaldan tveimur niðurgöngum í röð. Sú varð þó raunin í þetta skiptið því fjórði leikhluti var enn ömurlegri en sá þriðji. Liðið náði ekki einu sinni að skora tíu stig og virkaði hreinlega algjörlega vonlaust. Skotin flest tekin í flýti og raðklúður um allan völl urðu til þess að vænlegar stöður runnu út í sandinn og heimamenn þökkuðu gestunum gjafirnar. Þristur frá nýja manninum, Geks, hálfri mínútu fyrir leikslok minnkaði muninn í átta stig, 75-68, en hann sýndi ágæta takta.

Hæðirnar og lægðirnar of miklar

Stundum er talað um að eiga Jekyll & Hide frammistöðu og þetta var nú sennilega eins nálægt fullkomnun á þeim frasa og hægt er að komast. Þessi veikleiki Tindastólsliða í gegnum tíðina er að verða talsvert þreyttur eins og Pavel þjálfari kom inn á í spjalli við Vísi eftir leikinn: „Gífurleg vonbrigði auðvitað. Maður vonaðist eftir því að þetta myndi vera svona upphafið á einhverju. Þetta var náttúrulega mjög góður fyrri hálfleikur og hefðum við klárað leikinn sterkt þá hefðum við getað tekið eitthvað með okkur áfram, einhver framfaraskref. Í staðinn og kannski það jákvæða í þessu er að við sýndum í dag hvað er vandamál þessa liðs og hver vandamál Tindastóls hefur verið lengi,“ sagði þjálfarinn svekktur að leik loknum og bætti við:

„Það skiptir engu máli hver er að þjálfa, skiptir engu máli hver er að spila, hæðirnar og lægðirnar hjá þessu liði eru bara of miklar. Það er vandamál númer eitt. Það er verkefni mitt númer eitt. Ég er mjög lítið að pæla í þessum kerfum eða einhverju slíku, það er þetta sem er vandamálið. Hvernig við leysum það er svo bara eins og hvað annað. Það er bara vinna og það góða úr þessu er að núna er þetta bara svart á hvítu.“ Nú er bara að krossa fingur og vona að Pavel og strákarnir hans nái að finna lausn á vandamálinu.

Arnar var stigahæstur Tindastólsmanna í leiknum með 16 stig og þar af 14 í fyrri hálfleik. Geks var með 13 stig og Taiwo og Keyshawn tólf hvor. Stóru kapparnir, Drungalis og Siggi, gerðu samtals fimm stig sem er auðvitað grátlega slappt. Fyrirliðinn, Helgi Rafn, hefur ekki fengið margar mínútur í vetur og kannski kominn af léttasta skeiði. Þegar liðið lendir í svona flatneskju líkt og í gær eru þó ýmsir sem vilja sjá kappann mæta á parketið og rífa sína menn í gang með vænum skammti af baráttu og vilja. Það er ekki víst að það virki en kannski ekki heldur klárt að það klikki.

Lið Tindastóls er nú í sjöunda sæti Subway-deildarinnar með 14 stig líkt og Stjarnan og Gríndavík sem er í áttunda sæti. Í níunda sæti er lið Hattar sem kemur í heimsókn í Síkið á mánudaginn. Það er einfaldlega leikur sem verður að vinnast.

Þeir sem vilja dunda við að berja höfðinu við stein geta skoðað tölfræði leiksins hér >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir