Skrifað undir samstarfssamning í Skagafirði

Oddvitar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, Stefán Vagn Stefánsson og Gísli Sigurðsson takast í hendur eftir undirskrift samstarfssáttmála um stjórnun Sveitarfélagsins Skagafjarðar kjörtímabilið 2018-2022. Mynd: PF.
Oddvitar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, Stefán Vagn Stefánsson og Gísli Sigurðsson takast í hendur eftir undirskrift samstarfssáttmála um stjórnun Sveitarfélagsins Skagafjarðar kjörtímabilið 2018-2022. Mynd: PF.

Skrifað var undir samstarfssamning milli Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks um meirihlutasamstarf um stjórnun Sveitarfélagsins Skagafjarðar kjörtímabilið 2018-2022 í gær í Safnahúsi Skagfirðinga. Svo skemmtilega vill til að undirskriftin bar upp á sama dag og Sveitarfélagið Skagafjörður fagnar 20 ára afmæli. Í sáttmála flokkanna eru margar góðar tillögur sem snýr að breyttum vinnubrögðum sem og að unnið verði áfram að góðum málefnum ekki síst í skólamálum.

Hér má sjá hluta þess fólks sem efst sitja á hvorum lista næstu sveitarstjórnar. Gunnsteinn Björnsson, Einar E. Einarsson, Axel Kárason, Strefán Vagn Stefánsson, Haraldur Jóhannsson, Gísli Sigurðsson, Laufey K. Skúladóttir, Ingibjörg Huld Þórðardóttir og S. Regína Valdimarsdóttir. Mynd: PF.

 Meðal þess sem sveitarstjórnarfulltrúar vilja er að bjóða upp á reglubundna viðtalstíma vítt og breytt um héraðið. Gjaldskrár leik- og grunnskóla Skagafjarðar verði áfram lágar og ráðist verði í endurbætur á Varmahlíðarskóla. Þar er ætlunin að vinna að fullnaðarhönnun framtíðarhúsnæðis skólanna í Varmahlíð í samráði við íbúa og starfsfólk á grundvelli faglegra sjónarmiða.

Þá ætlar Sveitarfélagið að standa vörð um hagsmuni bænda og landbúnaðar í Skagafirði og svo geta hestamenn í Flæðigerði glaðst því ætlunin er að vinna að skipulagningu og endurbótum á hesthúsahverfinu við Sauðárkrók í samráði við Hestamannafélagið Skagfirðing.

Hverjir munu sitja í formannsstólum byggðaráðs og sveitarstjórnar kemur ekki í ljós fyrr en á sveitarstjórnarfundi nk. miðvikudag.

 

Sáttmáli um samstarf

Framsóknarflokkurinn (B) og Sjálfstæðisflokkurinn (D) gera með sér svofelldan sáttmála um meirihlutasamstarf um stjórnun Sveitarfélagsins Skagafjarðar kjörtímabilið 2018-2022.

Skagafjörður er samfélag sem hefur alla burði til að vaxa og eflast áfram. Meginmarkmið næsta kjörtímabils verður að styrkja grunnþjónustu og byggja upp innviði í héraðinu öllu, stuðla að jákvæðri þróun, fjölgun íbúa sveitarfélagins og eflingu atvinnulífs. Það er sú stefna sem flokkarnir ætla að beita sér fyrir á næstu fjórum árum. Gott samstarf við íbúa og atvinnulíf, aðra flokka í sveitarstjórn og starfsfólk sveitarfélagsins verða höfð að leiðarljósi í starfinu.

Á meðal helstu verkefna samstarfsins verða:

  • Áfram verði sýnt aðhald og ábyrgð í rekstri sveitarsjóðs.
  • Vinna skal að auknu íbúalýðræði og gagnsæi í stjórnsýslu og fjármálum Skagafjarðar.
  • Fundir nefnda Sveitarfélagsins Skagafjarðar verði haldnir með reglubundnum hætti á mismunandi stöðum í héraðinu.
  • Sveitarstjórnarfulltrúar bjóði upp á reglubundna viðtalstíma vítt og breytt um héraðið.
  • Hjá  sveitarfélaginu verði viðhöfð ábyrg og gegnsæ stjórnsýsla líkt og undanfarin ár og öll framtíðarstörf auglýst eins og verið hefur.
  • Halda þarf áfram því metnaðarfulla starfi sem unnið er í leik- og grunnskólum Sveitarfélagsins Skagafjarðar.
  • Fjölga skal dagvistunar- og leikskólaplássum í Skagafirði, m.a. með byggingu leikskóla á Hofsósi, viðbyggingu við yngra stig Ársala á Sauðárkróki og úrlausn leikskólamála í Varmahlíð í samráði við hagaðila.
  • Gjaldskrár leik- og grunnskóla Skagafjarðar verði áfram lágar og hækkanir ekki umfram verðlagsþróun. Gjaldskrár forgangshópa í leikskólum verði endurskoðaðar til lækkunar.
  • Tekin verði ákvörðun um endurbætur á húsnæði grunnskólans á Hofsósi og byggingu íþróttahúss á Hofsósi í samráði við íbúa svæðisins.
  • Ráðist verði í endurbætur á Varmahlíðarskóla. Unnið verði að fullnaðarhönnun framtíðarhúsnæðis skólanna í Varmahlíð í samráði við íbúa og starfsfólk á grundvelli faglegra sjónarmiða.
  • Haldið verði áfram með endurbætur á A-álmu Árskóla.
  • Ráðist verði í hönnun viðbyggingar fyrir tónlistarskólann við núverandi skólahúsnæði Árskóla.
  • Sveitarfélagið Skagafjörður verði Heilsueflandi samfélag sem leggur áherslu á að heilsa og líðan íbúa sé höfð í fyrirrúmi í stefnumótun á öllum sviðum.
  • Hækka hvatapeninga og endurskoða reglur varðandi úthlutun. Áfram verði stutt við fjölbreytileika í íþróttastarfi í Skagafirði.
  • Lokið verði við yfirstandandi framkvæmdir við Sundlaug Sauðárkróks en í þeim felst endurgerð og lagfæring núverandi mannvirkja. Í beinu framhaldi verði ráðist í næsta áfanga verksins sem er stækkun svæðisins í formi m.a. nýrra setlauga og rennibrauta.
  • Komið verði upp útikörfuboltavöllum í Varmahlíð og á Hofsósi.
  • Efla forvarnarmál og umræðu um forvarnir í samstarfi við foreldra, skóla, lögreglu og heilbrigðisyfirvöld í Skagafirði. Veita áframhaldandi stuðning við félagasamtök sem vinna að forvarnarstarfi og stuðningi við þolendur ofbeldis. Tryggja þarf virk ungmenna- og öldungaráð.
  • Unnið verði að uppbyggingu hjúkrunarrýma fyrir aldraða, í samstarfi við stjórnvöld.
  • Tryggja þarf íbúum Skagafjarðar aðgang að öflugri félagsþjónustu og að allir aldraðir íbúar sveitarfélagsins njóti lögbundinnar þjónustu. Unnið verði að aukinni samþættingu þjónustu til aldraðra á vegum ríkis og sveitarfélags.
  • Sveitarfélagið Skagafjörður verði áfram leiðandi sveitarfélag í málefnum fatlaðs fólks.
  • Tryggja þarf nægt framboð íbúðalóða á Hofsósi, í Varmahlíð og á Sauðárkróki. Hafnar verði framkvæmdir við Melatún á Sauðárkróki á árinu 2018.
  • Hafin verði vinna við deiliskipulag þéttbýliskjarna í Skagafirði og unnið að þéttingu byggðar innan þeirra. Unnið verði að heildarskipulagi opinna svæða í þéttbýliskjörnum sveitarfélagsins með tilliti til leikvalla og útivistarsvæða.
  • Stuðlað verði að áframhaldandi uppbyggingu á leiguhúsnæði í Skagafirði.
  • Bæta þarf og stækka hafnaraðstöðu á Sauðárkróki og Hofsósi. Hægt verði að taka á móti stærri og fjölbreyttari skipum á Sauðárkróki, þ.m.t. skemmtiferðaskipum.
  • Komið verði á almennri sorpflokkun í dreifbýli Sveitarfélagsins Skagafjarðar.
  • Lokið verði við sorpmóttökusvæði í Varmahlíð og á Hofsósi. Svæðin verði afgirt og læst en með mannaðri þjónustu á auglýstum opnunartíma.
  • Unnið verði áfram að fegrun þéttbýliskjarna sveitarfélagsins og settir fjármunir til hennar sem ráðstafað verður í samráði við íbúa. Ráðist verði í umhverfisátak í dreifbýli.
  • Áfram verði unnið að styrkingu innviða og umgjarðar í dreifbýli sem þéttbýli Skagafjarðar svo héraðið þyki aðlaðandi kostur fyrir einstaklinga, fyrirtæki og fjárfesta.
  • Tryggja þarf til framtíðar áætlunarflug til og frá Skagafirði. Halda þarf áfram baráttunni fyrir uppbyggingu Alexandersflugvallar sem varaflugvallar fyrir millilandaflug.
  • Standa vörð um opinber störf í Sveitarfélaginu Skagafirði og vinna að því að fjölga slíkum störfum.
  • Haldið verði áfram í markaðs- og kynningarátaki fyrir Skagafjörð. Auglýsa þarf Skagafjörð sem ákjósalegan kost til búsetu og aðdráttarafl fyrir ferðamenn.
  • Styðja við öflugt og skapandi menningarstarf og að í boði sé fjölbreytt úrval viðburða fyrir alla aldurshópa sem gefi ólíkum einstaklingum tækifæri til samveru, vaxtar og þroska.
  • Ráðist verði í uppbyggingu menningarhúss á Sauðárkróki og núverandi starfsemi Safnahússins efld.
  • Framtíðarskipulagi safnsvæðisins í Glaumbæ verði lokið. Í framhaldinu verði hafnar framkvæmdir við bætta aðstöðu fyrir Byggðasafn Skagfirðinga, bæði hvað varðar móttöku ferðamanna og faglegt starf.
  • Sveitarfélagið standi vörð um hagsmuni bænda og landbúnaðar í Skagafirði.
  • Efla Matarkistu Skagafjarðar í samvinnu við framleiðendur.
  • Sveitarfélagið Skagafjörður hafi forgöngu um að matvæli sem framleidd eru í Skagafirði séu notuð í stofnunum sveitarfélagsins.
  • Áfram verði unnið að uppbyggingu og viðhaldi reiðvega í Sveitarfélaginu Skagafirði í samvinnu við Hestamannafélagið Skagfirðing.
  • Unnið verði að skipulagningu og endurbótum á hesthúsahverfinu við Sauðárkrók í samráði við Hestamannafélagið Skagfirðing.
  • Áfram verði stutt við öfluga starfsemi björgunarsveita í Skagafirði.
  • Halda skal áfram að hitaveituvæða þá hluta dreifbýlis í Sveitarfélaginu Skagafirði sem raunhæft er að leggja heitt vatn um, skv. núverandi áætlun um hitaveituvæðingu Skagafjarðar.
  • Þau lögheimili í dreifbýli sem eru á svæðum sem ekki eiga kost á heitu vatni verði styrkt sérstaklega til fjárfestinga í annars konar orkunýtingu, s.s. til kaupa á varmaskiptum.
  • Ljósleiðaravæðingu dreifbýlis í Skagafirði verði lokið fyrir árslok 2020, í samræmi við landsátakið Ísland ljóstengt.

 

Skagafirði, 15. júní 2018

_______________________________                                             _______________________________

Stefán Vagn Stefánsson                                                                       Gísli Sigurðsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir