Skriða hreif með sér vatnsbólið
Afleiðingar vatnsveðursins undanfarið hafa verið miklar og ábúendur á Bræðraá í Sléttuhlíð fengu að finna fyrir þeim þegar tvær stórar skriður féllu úr bæjarfjallinu Bræðraárhyrnu sl. föstudagskvöld og hrifu með sér vatnsbólið fyrir bæinn og síðan þá hefur ekkert kalt vatn verið á bænum. Ljóst er að miklar framkvæmdir eru framundan og óljóst um tjón svo ekki sé talað um þau miklu landsspjöll sem svona skriður valda.
Í fyrstu var talið að tvö vatnsból hefðu farið, bólið fyrir Bræðraá og Róðhól en vatnsbólið fyrir Róðhól liggur á mili skriðanna tveggja svo það er mikil mildi að það skyldi sleppa, á því bóli eru nokkrir bæjir og bústaðir. Verið að að skoða hvort hægt sé að tengja Bræðraá inná bólið sem slapp því framkvæmd við nýtt vatnsból er mikil og ótækt í bili enda allt gegnsósa. Undirbúningur er hafinn við að tengja langnirnar saman. Feykir heyrði í Steinunni ábúenda á Bræðraá sem líkti ástandinu á heimilinu við fjallaskálastemmingu - safna rigningavatni í fötur og selflytja svo drykkjarvatn frá tengdó á Króknum.
Kannski áttar maður sig aldei alveg á því hvað kalt rennandi vatn skiptir í raun miklu máli fyrr en maður missir það. Það flækir allar daglegar athafnir umtalsvert en sárið sem svona skriður skilja eftir í fjallinu er sennilega það sem tekur lengstan tíma að venjast, berjalandið farið og ásýndin gjörbreytt.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.