Skriða féll yfir Reykjastrandarveg í gær
Það rigndi heilan helling í gær og þá ekki hvað síst á Tröllaskaganum. Veðurstofan gaf út gula veðurviðvörun fyrir gærdaginn og varaði við flóða og skriðuhættu í kjölfar rigninganna. Fjölmiðlar greindu frá því að skriða hefði fallið á Reykjastrandarveg og þá fékk Feykir upplýsingar um að skriða hafi fallið ofan við Ingveldarstaði í Hjaltadalnum en þar rigndi mikið.
Fram kemur í frétt á RÚV í gær að ferðamenn hafi tilkynnt um aurskriðu sem fallið hafði úr Tindastólnum og yfir Reykjastrandarveg. Að sögn Gústa Bents var ekki um stóra spýju að ræða. „Ég var búinn að opna eftir hálftíma fyrir bílana í gegn, eina línu. Svo er maður heillengi að ganga frá þessu náttúrulega,“ sagði gröfumaðurinn.
Nokkur umferð ferðamanna er um Reykjaströnd en Grettislaug, sem er við Reyki yst á ströndinni, er vinsæl hjá ferðamönnum.
Að sögn Halldórs Gunnars í Fljótum þá féllu einhverjar skriður – ekki stórar – í Stíflunni og fór því kannski betur en á horfðist því úrkoman var mikil. Feykir hafði samband við lögregluna á Sauðárkróki en þangað höfðu engar hringingar borist vegna skriðufalla.
Engar fréttir eru stundum góðar fréttar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.