Skotfélagið Markviss með sitt fyrsta Viking Cup mót

Frá Viking Cup mótinu. Mynd tekin af Facebooksíðu Markviss
Frá Viking Cup mótinu. Mynd tekin af Facebooksíðu Markviss
Um verslunarmannahelgina fór fram fyrsta "Viking Cup" mótið í Norrænu Trappi. Um er að ræða keppni milli Skotfélaganna Markviss og Eysturskot frá Færeyjum. Hugmyndin að mótinu kviknaði í spjalli milli tveggja félagsmanna úr sitthvoru félaginu fyrir nokkru síðan og varð loks að veruleika nú í ár.
 
Fimm keppendur frá Eysturskot mættu til keppni á Blönduósi um helgina. Ferðin gekk ekki áfallalaust fyrir sig því flugi frá Færeyjum var frestað vegna veðurs og náðu þeir því ekki í tíma fyrir æfingu daginn fyrir mót. Leyst var úr því með að bjóða þeim æfingatíma á laugardagsmorgni og byrjun móts færð frá kl.10:00 til 13:00. Að lokinni keppni á laugardegi var gestum boðið til kvöldverðar á B&S þar sem boðið var upp á afbragðs lambakjöt úr héraði. Keppni hófst svo á hefðbundnum tíma á sunnudegi og voru skotnar þrjár síðustu umferðirnar auk úrslita í einstaklingskeppninni.
 
Úrslit fóru á þá leið að í unglingaflokki hafnaði Elyass Kristinn Bouanba í 1. sæti, Marius Gaardlykke í 2. sæti og Ólafur B. Hafliðason í þriðja.
Í einstaklingskeppninni hafnaði Guðmann Jónasson í fyrsta sæti á íslandsmets jöfnun 135/150, Carsten Joensen í 2. sæti og Kristian Johannessen 3. sæti.
Lið Eysturskot hampaði svo Viking Cup titlinum í liðakeppninni, A-lið Markviss var í öðru sæti og B-lið Markviss í þriðja.
 
Á næsta ári munu svo félagar í Markviss sækja félaga sína í Eysturskot heim og freista þess að ná titlinum til baka.
Nánari úrslit má sjá hér fyrir neðan og á úrslitasíðu skotíþróttasambands íslands (www.sti.is).
 
 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir