Skemmtanastjórinn þarf að halda sér inni á vellinum
Einvígi Njarðvíkinga og Tindastóls í undanúrslitum Subway-deildarinnar hefst í Ljónagryfjunni í Njarðvík í kvöld og ekki laust við að fiðringur sé farinn að gera vart við sig hjá stuðningsmönnum Stólanna. Oft hafa væntingar verið miklar og eflaust hafa einhverjir lært það af reynslunni að spenna væntingabogann ekki of hátt. En lið Tindastóls hefur verið að spila vel, er með meistara Pavel í brúnni og sagt er að trúin flytji fjöll. Kannski er komið að Tindastóli? Feykir hafði samband við Brynjar Þór Björnsson, fyrrum leikmann Stólanna og margfaldan meistara úr Vesturbænum, og hann er bjartsýnn á gengi Tindastólsliðsins.
Hvaða væntingar hefur þú fyrir rimmu Njarðvíkur og Tindastóls í undanúrslitum? „Ég hlakka mikið til að fylgjast með þessum tveimur frábæru liðum sem eru bæði með breiða og góða leikmannahópa. Það hlakkar í mér og fleirum að sjá stemminguna sem er að skapast í kringum Tindstólsliðið, umgjörðin í kringum heimaleikina og mæting stuðningsmanna á útivellina er mögnuð. Þetta verður sería tveggja ólíkra leikstíla. Njarðvíkingar vilja væntanlega halda hraðanum niðri og ekki hleypa Stólunum á flug meðan Stólarnir vilja keyra upp leikinn og fá auðveldar körfur. “
Hvað þurfa Stólarnir að varast? „Skemmtanastjórinn Sigtryggur Arnar þarf að halda sér inni á vellinum. Hann er frábær varnarmaður sem á það til að lenda í villuvandræðum vegna klaufalegra villna. Ég vonast svo innilega til að hann sleppi við vandræðin, hann er svo mikið ólíkindatól að við körfuboltaunnendur viljum njóta hans einstöku hæfileika sem mest.“
Hver er spáin fyrir einvígið? „Ég tel að liðið sem fer áfram úr þessari seríu verði Íslandsmeistari. Ég spái sigri Tindastóls sem lokar seríunni fyrir fullu húsi laugardaginn 29. apríl. 3-1!“
Leikurinn hefst kl. 19:15 og þeir sem ekki komast í Gryfjuna geta horft á leikinn á Stöð2Sport.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.