Skagfirsks Range Rovers leitað í Hafnarfirði
Range Rover bifreið sem hvarf af stæði Vörumiðlunar aðfaranótt mánudags er nú leitað í Hafnarfirði. Svartur Range Rover sem dregur kerru með svörtum Range Rover vakti athygli vegfaranda.
Lögreglunni á Sauðárkróki bárust ábendingar um það að svartur Range Rover hefði verið á ferðinni á höfuðborgarsvæðinu með svartan Range Rover á kerru og stefndi á iðnaðarsvæði í Hafnarfirði. Grunur leikur á að þar hafi verið á ferðinni bíllinn sem staðið hefur á stæði Vörumiðlunar s.l. fjögur ár en var fjarlægður í skjóli nætur aðfaranótt mánudags.
Bíllinn hefur verið ótollskoðaður á plani Vörumiðlunar vegna þess að pappíra vantaði með bílnum en hann var fluttur inn af einkaaðila á Sauðárkróki. Varðstjóri lögreglunnar á Sauðárkróki segir að bíllinn sé hvergi skráður þannig að þeir sem tóku hann hafi líklega séð hann á planinu og ákveðið að slá eign sinni á hann.
Bíltökumennirnir fóru gætilega því ekkert sást til þeirra í eftirlitsmyndavélum sem staðsettar eru á bensínstöðvum frá Sauðárkróki og suður né heldur í Hvalfjarðagöngum og má geta sér þess til að keyrt hafi verið fyrir Hvalfjörðinn.
Þeir sem búa yfir upplýsingum um hvar bíllinn gæti verið niðurkominn er bent á að hringja í Lögregluna á Sauðárkróki í síma 455-3366.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.