Skagfirskir Blikar með smá Húnvetnsku ívafi gera gott körfuboltamót í Danmörku
Íslandsmeistarar í 7. flokki drengja í körfubolta, Breiðablik, höfnuðu um síðustu helgi í 2. sæti á alþjóðlegu móti sem nefnist Copenhagen Invitational og fór fram í Kaupmannahöfn. Í fyrra var Feykir með frétt um efnilega körfuboltadrengi í MB11 sem væru með skagfirskt blóð í æðum í liði Breiðabliks og nú voru þessir drengir aftur á ferðinni og gerðu heldur betur gott mót.
Þetta eru þeir Rúnar Magni Rúnarsson, Sölvi Hrafn Arnarsson, Axel Kári Arnarsson og Kristján Ágústsson. Foreldrar Rúnars Magna eru Rúnar Svenna Siffa og Efemía Rún Bjössa Skarp og Ingu Möggu. Foreldrar Sölva Hrafns eru Helga Hrönn Þorbjörnsdóttir (Árna) og Arnar. Foreldrar Axels Kára eru Arnar Kárason (Mar) og Gunnhildur Árnadóttir (Stefáns og Herdísar). Foreldrar Kristjáns eru Sigrún Kristjánsdóttir og Ágúst. Pabbi hennar er Kristján Eiríksson (frá Fagranesi)
Þeir, ásamt félögum sínum í Breiðablik, unnu alla sína leiki í riðlakeppninni en eitt af þeim liðum sem þeir spiluðu við voru ríkjandi Scania Cup - meistara í Hørsholm 79ers. Í þeim leik var hörku barátta en þegar 2,5 sek. voru eftir af leiknum skoruðu Blikar þriggja stiga körfu og unnu þar með leikinn með minnsta mögulega mun.
Úrslitaleikinn spiluðu þeir svo á móti sænsku meisturunum í Trelleborg Pirates og var leikurinn jafn og spennandi nánast allan tímann. Þegar fjórði leikhluti var hálfnaður komust Blikar einu stigi yfir en þá tóku Svíar leikhlé. Blikar lentu svo í villuvandræðum og misstu mikilvægan leikmann út af sem Svíar nýttu vel og gengu á lagið og kláruðu leikinn 62-50 og 2. sætið því staðreynd. Frábær árangur hjá þessum flottu strákum.
Til að toppa þessa glæsilegu velgengni var Rúnar Magni Rúnarsson (Sjá mynd hér til hægri) valinn í All Star lið mótsins, en hann var fjórði stigahæsti leikmaðurinn á mótinu liðsfélagi hans, Benedikt Arnór Þórólfsson, náði einnig inn á topp tíu listann. Önnur athyglisverð tölfræði eftir mótið var að Blikar voru í 3ja sæti á öllu mótinu yfir flestar þriggja stiga körfur (allir aldursflokkar, bæði drengir og stúlkur). Miklar skyttur á ferðinni hjá Blikum.
Þá barst Feyki til eyrna að það séu fleiri tengsl hingað norður hjá hópnum en þjálfari hópsins, Þórólfur Heiðar Þorsteinsson, er fæddur og uppalinn í Húnavatnssýslu. Fæddur að Syðri - Löngumýri, Blöndudal - en ólst að mestu upp á Reykjum, Húnavöllum. Synir hans, Benedikt Arnór og Matthías Örn, eru líka í leikmannahópnum og eiga þeir stóran frændgarð í Skagafirði því systkini ömmu þeirra búa í Skagafirði en það eru þau Sigurgísli Kolbeinsson (Gísli í Trésmiðjunni Borg), Þórdís Þórisdóttir (gift Árna Egils) og Bjarni frá Mannskaðahóli. Þannig að það er ótrúlega gaman hversu stór hluti af hópnum á rætur að rekja hingað norður.
Til hamingju með árangurinn strákar og vonandi eigum við eftir að sjá ykkur alla á parketinu í Síkinu í framtíðinni.
Heimild: Karfan.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.