Skagfirðingar í belgingi í Borgarnesi
Árlegt golfmót brottfluttra Skagfirðinga fór fram í Borgarnesi á dögunum. Þrátt fyrir norðaustan belging var þátttakan með allra besta móti, um 90 keppendur og þar af um þriðjungur sem kom að norðan til að hitta gamla kunningja og etja kappi við þá.
Í punktakeppni karla sigraði Eyþór Einarsson, barnabarn Eyþórs Stefánssonar, og í kvennaflokki Steinunn Þorkelsdóttir. Steinunn og maður hennar, Viðar Sveinbjörnsson, voru punktahæsta parið en Viðar á ættir sínar að rekja til Hofs í Vesturdal, sonur Báru Pétursdóttur, svona til fróðleiks fyrir ættbókaraðdáendur, eins og segir í fréttatilkynningu frá Birni Jóhanni Björnssyni. Halldór Heiðar Halldórsson fór Hamarsvöll á fæstum höggum, 79, og næstur kom stóri bróðir, Örn Sölvi, með 80 högg.
Eyþór náði 34 punktum, jafnmörgum og Auðunn Blöndal, en með fleiri á seinni hring. Auddi fékk hins vegar bara heiðurinn af 2. sætinu, engin verðlaun þar sem hann er ekki í klúbbi með löglega forgjöf. Hann þarf að koma sér í klúbb, drengurinn, greinilega sjóðandi heitur í golfinu, segir ennfremur í fréttatilkynningunni. Sömu sögu var að segja um Elías Þór Grönvold, fósturson Lindu Kára, sem var með 33 punkta. Hann fékk bara heiðurinn, en næstu menn þar á eftir voru Jóhannes Ottósson frá Viðvík (33), Sæi Steingríms (33), Guðjón Baldur Gunnarsson (32), Steini Hauks (32), Muggur (31), Viðar Sveinbjörnsson (31), Guðbjartur Haralds (31), Steini Þórs (31) og Friðjón Bjarnason læknir (31).
Í kvennaflokki var Inga Jóna Stefánsdóttir frá Fljótum í öðru sæti, með 33 punkta, og Nína Þóra Rafnsdóttir í 3. sæti með 32 punkta. Næstar komu Jónína Helga Jónsdóttir (32), Hafdís Ævarsdóttir (32), Lóa Hartmanns (30), Auður Aðalsteinsdóttir (29), Ásgerður Þórey Gísladóttir (29), Ádís Elva Aðalsteinsdóttir (29) og Freyja Jónsdóttir (28).
Fjöldi aukaverðlauna var í boði sem fyrr. Lengsta teighögg á 9. braut hjá körlum átti Bjartur og Sigríður Eygló Unnarsdóttir hjá konum. Á 4. braut voru Guðjón Baldur og Ella Sigga næst holu í 2. höggi. Bjartur var sjóðheitur þennan dag, var næstur holu á 2. braut (1,54m) og Aldís Ósk Unnarsdóttir var enn nær, 1,31m. Aldís var einnig næst holu á 8. braut hjá konum, 11,35m, og þar var Friðjón læknir næstur meðal karla, 6,56m. Á 10. holu var Simmi í bankanum í góðri sveiflu, með 1,72m frá holu, og Guðrún Andrésdóttir næst kvenna, 5,53m. Á 14. holu klikkaði málbandið og menn skrefuðu þetta bara. Hjá körlum var Eyþór með 3,5 fet og Steinunn Þ. með 23,5 fet. Á 16. braut, eyjunni margfrægu, var Örn Sölvu 2,80m frá holu í fyrsta höggi og Kristbjörg Kemp hjá konum, 6,60m.
Séra Hjálmar Jónsson var meðal keppenda og spreytti sig að sjálfsögðu á 16. holunni, gekk brösuglega í rokinu eins og hjá mörgum öðrum. Í hollinu á eftir, sem fylgdist grannt með, fæddist þessi limra:
Von er að veðrið nú batni,
vandi að spila af natni.
Á sextándu holu,
í syngjandi golu,
sérann hann gekk á vatni.
Yfir 50 fyrirtæki og einstaklingar styrktu Skagfirðingamótið með veglegum verðlaunum. Kann mótsnefndin þeim bestu þakkir fyrir frábæran stuðning, nú sem endranær, en þetta var 17. Skagfirðingamótið. Stærstu styrktaraðilar voru Icelandair, Hótel Borg, Hótel Hamar, Bláa lónið, Landsbankinn Skr, Dale Carnegie, FISK Seafood, Límtré-Vírnet, Ölgerðin, Nói-Síríus, Kaupfélag Skagfirðinga, Flugfélag Íslands og Sjöfn Sigfúsdóttir.
Aðrir styrktaraðilar voru Apótek Vesturlands, Arctic Trucks, Arionbanki Skr, Arkir-Hansa Papier, Bakarí Jóa Fel, Bókaútgáfan Hólar, Brimborg, Byko, Fiskkaup, Flugger-litir, Geirabakarí, Golfbúðin, Golfklúbbur Borgarness, Hlíðarkaup, Hole in One, Intersport, Íslandsbanki, Íslandsstofa, Íslenska auglýsingastofan, Íslenska umboðssalan, Lýsing, Málarasmiðjan, Microbar-Gæðingur, Mjólkursamlag KS, Morgunblaðið, Myllan, Passion-bakarí, Penninn, Reykjavik Distillery, Reynir bakari, Sauðárkróksbakarí, Smith&Norland, Sóma-samlokur, Steinullarverksmiðjan, Svfél. Skagafjörður, Villa Real Wine, Vodafone og HH-trésmiðir.
Fréttatilkynning
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.