Sjoppan mín á Skagaströnd :: Gunnar Viðar Þórarinsson í léttu spjalli

Frá því var greint á Feyki í sumar að til stæði að breyta þjónustustöðvum Olís á Skagaströnd, Ólafsfirði og í Fellabæ í sjálfsafgreiðslustöðvar ÓB sem lið í stefnu fyrirtækisins að útvíkka þjónustu- og vöruframboð á þeim þjónustustöðvum sem eftir standa. Hafði þetta í för með sér að sjoppan á Skagaströnd lokaði um miðjan september en unnið var að því að finna rekstraraðila sem gæti nýtt húsnæðið sem fyrir var. Í stuttu máli sagt fannst rekstraraðili að öllum sjoppunum þremur og munu þær heita Sjoppan mín í framtíðinni.

Sá sem tók að sér reksturinn er Skagfirðingur að upplagi, Gunnar Viðar Þórarinsson, en hann býr ná á Reyðarfirði. Foreldrar hans eru þau Helga Hjálmarsdóttir og Þórarinn Þórðarson á Sauðárkróki. Í spjalli við Feyki segir Gunnar hafa átt fund um miðjan september við stjórnendur Olís þar sem hann var að forvitnast með sjoppuna á Ólafsfirði og leist þeim vel á. Vildu að Gunnar tæki við á Ólafsfirði og helst tvær sjoppur í viðbót, í Fellabæ og á Skagaströnd og sagðist hann skyldu skoða það.

„Ég hafði góða trú á því að láta það ganga í Fellabæ en sagðist myndi skoða Skagaströnd frekar. Ég hugsaði með mér að þetta gæti gengið ef það væri lítil opnun eða ekki eins mikil viðvera og hafði verið áður. Olís ákvað frekar að loka þessari sjoppu frekar en að prófa einhverjar breytingar. Það var vegna stefnu sem þeir fókusera á þ.e. að hætta með minnstu sjoppurnar og leggja meiri áherslu á aðrar sjoppur og efla þær.

Gunnar er ekki alveg reynslulaus í sjoppurekstrinum því hann hefur verið í samstarfi með Orkunni síðan 2018. Hann segir það hafa gengið mjög vel enda hafi hann áhuga á slíku samstarfi þar sem hann er þá ekki einn að reka sjoppurnar heldur hafi hann bakland sem hann nýtur stuðnings af.

„Olís bauð mér góðan samstarfssamning en ég rek sjoppurnar á eigin kennitölu. Það eru talsverðar fjárfestingar í þessu svo það var enginn að falast eftir því að taka við þessu hvorki á Skagaströnd, Ólafsfirði né Fellabæ. Það er talsverður innkaupspakki að kaupa allt inn, olíuvörur, gaskúta, nammið, tóbakið og þar fram eftir götunum.“

Hann segir ekki marga tilbúna í slíkan fjarrekstur með starfsfólki, sem sé ákveðin áskorun, en hann hefur sérhæft sig í slíku og náð góðum tökum á.

„Ég er með tíu sjoppur eða starfsstöðvar núna. Það er ákveðin stærðarhagkvæmni í því og eflir reksturinn en sjoppurnar styðja hver við aðra. Þetta eru tíu starfsstöðvar þar af eru sex sem selja eingöngu nikótínpúða og rafsígarettur sem ég er öflugur innflutningsaðli af allt frá upphafi 2016. Ég hef reynt að veita góð verð og sérstaklega góða þjónustu og hef fókuserað á landsbyggðina,“ segir hann en ein slík verslun er á Sauðárkróki, Djákninn, sem opnaði 2019. Gunnar segir að vel hafi gengið hafi og reksturinn verið að eflast.

„Við höfum verið að sérhæfa okkur í að hjálpa fólki að hætta að reykja. Það hafa verið alls konar tískubólur í kringum þessar rafrettur þar sem við höfum fylgt og verið með tísku vape. Ég er eiginlega að fara á skjön við mína vinnu og stefnu gagnvart tóbaki þar sem maður selur tóbak í sjoppunum. Það er einfaldlega vegna þess að ég vildi ekki, þegar ég tæki við þessum sjoppum, vera með lakari þjónustu en áður var. Ég vil frekar hafa þjónustuna betri og sérsníða sjoppurnar að hverju bæjarfélagi fyrir sig. Eitt sem virkar í einum bæ virkar kannski ekki í öðrum.

Gunnar segir að á Skagaströnd verði haldið áfram með það sem virkaði en hætta því sem ekki gekk og hlutum bætt við sem hafi vantað.

Dagný Þorgeirsdóttir var ráðin verslunarstjóri en eftir á að ráða starfsmann til að vera með eldhúsið en þar stendur til að bjóða m.a. upp á góða hamborgara þar sem ekki er verið að kaupa ódýrt hráefni, bara mjög gott, eins og Gunnar útskýrir fyrir spyrjanda. Hann segist frekar vilja byrja smátt en bæta svo í eftir því hvað kunni að vanta í staðinn fyrir að byrja með allt og sjá svo til með tilheyrandi rýrnun og tapi.

Gunnar segist hafa tekið við sjoppunum af því að hann hafi gaman af þessu vafstri frekar en að honum vanti verkefni þar sem nóg er að gera hjá honum. „Ég er ekki af þessu af því að mig vantar að hafa meira að gera, hef nóg að gera, þetta var meira áskorun að taka við keflinu. Ef ég hefði ekki tekið við þessu væru þessa sjoppur líklega ennþá lokaðar, en mig langaði til að gera þetta. Hvort að ég tapi á þessu verður tíminn að leiða í ljós. En ég er bjartsýnn að þetta geti gengið,“ segir hann.

 

En af hverju Sjoppan mín?

„Ástæðan fyrir því að ég tók af skarið með þetta nafn var að allir vilja eiga sína sjoppu og þá kom upp nafnið Sjoppan mín. Það vilja allir hafa sjoppu í bænum sínum!“

Líklega geta flestir tekið undir það. Sjoppan mín Skagaströnd opnaði 1. nóvember sl. og er Gunnar virkilega ánægður með hlýjar og frábærar móttökur bæjarbúa og segist hlakka til að koma aftur á Skagaströnd.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir