Sjóðheitir fyrirlestrar og stofnun Hollvinasamtaka á dagskránni

Fjölbreytt dagskrá er á næstunni á vegum Byggðasafns Húnvetninga og Strandamanna. Með sunnudagskaffinu fyrirlestraröðin heldur áfram í Safnaðarheimili Hvammstangakirkju sunnudaginn 27. september 2015 kl. 14. Þar verða haldnir tveir sjóðheitir fyrirlestrar sem báðir tengjast okkar safnasvæði.

Annars vegar flytur Ragnhildur Bragadóttir sagnfræðingur fyrirlesturinn  Sigurlaug, ástkona auðmanns. Hins vegar flytur  Friðþór Eydal fyrirlestur um Hersetuna á Ströndum og Norðurlandi vestra, en bók hans um efnið er væntanleg nú á haustmánuðum og verður þá til sölu á safninu. Ókeypis er inn og allir velkomnir. Hægt verður að kaupa kaffi og kleinur á staðnum.

Fyrirlestur Ragnhildar segir af konu sem var á dögum svo til alla 19.öldina, og ástum og þá barneignum hennar og einna fimm karla – að nafni til – þá helst stórbónda nokkurs í Húnaþingi, eins auðugasta bónda norðanlands á sinni tíð, sem tók konuna trausta taki á unga aldri og gerði að langtíma opinberri frillu sinni. Greint er frá ættum þeirra beggja og umhverfi og þá tíðaranda til að öðlast fyllri mynd og skilja betur söguhetjurnar. Þá er sagt frá hvernig börnum konu þessarar farnaðist, og hugur leiddur að rangfeðrun, því hvernig piltum, ungum vinnumönnum, voru kennd börn kvæntra karla með vinnukonum sínum – til að gæta velsæmis; reynt að ráða í litskrúðugt ástarlíf stórbænda og örlög kvenna þeirra og framhjátöku barna. Hver var staða vinnukvenna á þessum umbrotatíma, tíma hægfara breytinga? Voru þær reyrðar í fjötra; voru þessar konur undirokaðar, kúgaðar, ófrjálsar manneskjur? Vissulega. En voru þær ávallt nauðugar hjásvæfur? Gátu þær á einhvern máta ráðið örlögum sínum, valið sér jafnvel verndara í líki elskhuga á tímum harðræðis, eintæðingsskapar og stéttaskiptingar.

Fyrirlestur  Friðþórs segir frá bresku og bandarísku herliði er dvaldi á Ströndum og Norðurlandi vestra á árum heimsstyrjaldarinnar síðari og setti mark sitt með ýmsum hætti á líf og störf íbúa þessa landshluta líkt og annarsstaðar á þessum víðsjárverðu tímum. Dvölin við Húnaflóa og í Skagafirði var ekki síður eftirminnileg og reynslurík þeim ungu mönnum sem hrifnir voru frá heimkynnum sínum og skildu standa vörð við framandi aðstæður á hjara veraldar í hringiðu mesta hildarleiks mannkynssögunnar. Hersetunni á Ströndum og Norðurlandi vestra hefur oftast verið gerð takmörkuð skil í umfjöllun um hernámið. Reykjaskóli var hersetinn í þrjú ár og stór liðsafli dvaldi á Reykjatanga. Allstór liðsafli dvaldist einnig á Blönduósi og á Sauðárkróki en auk þess voru varðstöðvar á Ströndum, Borðeyri, Hvammstanga, Skagaströnd, Varmahlíð og víðar. Ítarleg frásögn er af sjóslysi á Hrútafirði þar sem 18 hermenn hurfu í hafið og ljósi varpað á missögn um heimsókn söng- og leikkonunnar Marlene Dietrich til Sauðárkróks svo fátt eitt sé nefnt.

Þriðjudaginn  29. september 2015 kl. 20 er boðað til kynningarfundar um stofnun Hollvinasamtaka um Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna.  Fundurinn er boðaður í samstarfi safnsins og Ragnars Braga Ægissonar sem býður sig fram til forystu í félaginu. Fundarstaður er Bókasafnið Höfðabraut 6 Hvammstanga. Stutt kynning verður á vegum safnsins  á því hvernig hollvinafélög starfa á söfnum og hvaða verkefni þau taka að sér og síðan mun Ragnar taka við og skrá hjá sér áhugasama einstaklinga er vilja ganga til liðs við Hollvinasamtökin. Allir eru velkomnir er telja sig geta lagt safninu lið með sjálboðaliðavinnu af ýmsum toga.

Við á Byggðasafni Húnvetninga og Strandamanna settum í samstarfi við Baskavinafélagið upp sýningu nú í sumar í anddyri safnsins á Reykjum um Spánarvígin. Á næstunni verður safnið opið á virkum dögum kl. 9-17 fyrir áhugasama um sýningu þessa. Núna í vikunni  nánar tiltekið 21. september voru rétt 400 ár frá því skip baskneskra hvalveiðimanna braut á hafís á Ströndum, en sá atburður leiddi óbeint til Spánverjavíganna svokölluðu um þremur vikum síðar. Í vikunni var sett upp sýning Baskavinafélagsins um Spánverjavígin í Þjóðarbókhlöðunni í Reykjavík.

/Fréttatilkynning

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir