Sitthvað um sameiningu sveitarfélaga - Áskorandi Ólafur Magnússon Sveinsstöðum
Það styttist í það að við sem búum í Húnavatnshreppi og Blönduósbæ fáum að kjósa um sameiningu þessara tveggja sveitarfélaga. Ég hef beðið lengi eftir þessum degi og var í raun svo bjartsýnn að halda að við myndum vera búin að sameinast fyrir mörgum árum.
Ég sé mjög marga stóra kosti við að sameina þessi tvö sveitarfélög og það er vert að nefna að Blönduós getur ekki án sveitarinnar verið og sveitin ekki án Blönduóss verið og sem ein heild erum við öflugri á flestum sviðum.
Hvað er það sem við viljum fá út úr þessari sameiningu?
Ég á þrjú börn á grunnskólaaldri og út frá þeim hugsa ég þetta mest, þarna er lagður grunnur að lífi okkar framtíðarfólks. Félagsskapur, samvera, vinir, tómstundir, kunningsskapur og góð menntun er það sem máli skiptir. Að krakkarnir fái að umgangast og vera með hópi af jafnöldrum sínum, þau tengjast böndum sem sum lifa með alla ævi og rækta samband sín á milli. Þau læra og fá að nota félagsfærni sína þegar kominn er saman hópur ungs og efnilegs fólks á sama aldri.
Það að búa í sveit eru forréttindi, mikil forréttindi, en því fylgir líka að krakkar eru töluvert einangraðir heima utan skólatíma, þú röltir ekki yfir í næsta hús og kíkir til vina þinna. Því er svo mikilvægt að krakkar hafi tækifæri til að njóta þessa tíma meðan á skóla stendur og í tómstundum. Hér í Húnavatnshreppi hefur börnum fækkað mikið svo fá börn eru eftir í skólanum. Það hamlar þeim félagslega og einangrar þau einnig í skólanum, ekki bara heima fyrir, þau eru í lítilli dásamlegri kúlu sem er frábær að mörgu leyti.
Með sameiningu sveitarfélaga verða skólarnir sameinaðir og einn nýr skóli sameinaðs sveitarfélags verður til, þar fá krakkarnir tækifæri til að þroskast félagslega, hafa fleiri jafnaldra, kynnast fleiri krökkum og vinahópurinn stækkar sem síðan fylgir þeim áfram þegar í framhaldsskóla kemur og jafnvel áfram út lífið. Þeir geta tekið þátt í ýmsum tómstundum og stundað flestar þær íþróttir sem hugurinn girnist.
Því segi ég já þegar við göngum til kosninga um sameiningu þessara tveggja sveitarfélaga fyrir framtíðina, fyrir krakkana.
Ég skora á Jón Örn Stefánsson að taka við pennanum.
Áður birst í 3. tbl. Feykis 2022
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.