Silli kokkur og Elsa Blöndal eiga heitasta matarvagn landsins

Fimm fræknu með besta borgarann í Evrópu. Frá vinstri: Grétar Jóhannes Sigvaldason (Jói), Silli (Sigvaldi Jóhannesson), Elsa Blöndal Sigfúsdóttir, Petrós María Sigvaldadóttir og Róslinda Jenný Sverrisdóttir. MYNDIR: HEIDA HB
Fimm fræknu með besta borgarann í Evrópu. Frá vinstri: Grétar Jóhannes Sigvaldason (Jói), Silli (Sigvaldi Jóhannesson), Elsa Blöndal Sigfúsdóttir, Petrós María Sigvaldadóttir og Róslinda Jenný Sverrisdóttir. MYNDIR: HEIDA HB

Óhætt er að fullyrða að Silli kokkur bjóði upp á bestu borgara álfunnar en þeir hafa slegið í gegn í keppnum um besta götubitann bæði hérlendis sem erlendis. Skagfirðingar hafa reglulega fengið tækifæri til að nálgast hnossgætið þegar Silli mætir með matarvagninn á planið fyrir utan verkstæði Gylfa Ingimars og dásama undantekningarlaust það sem ratar í belginn. Feykir forvitnaðist um Silla kokk, besta borgarann og tengingu hans við Skagafjörð.

„Silli kokkur var ótvíræður sigurvegari hinnar árlegu Götubitahátíðar sem haldin var í Hljómskálagarðinum. Er það þriðja árið í röð frá því hátíðin hóf göngu sína sem Silli kokkur vinnur keppnina um besta götubitann,“ segir í frétt Fréttablaðsins þann 23. júlí síðastliðinn. Í október var svo gert strandhögg í Þýskalandi þar sem keppni um besta götubita Evrópu fór fram og var borgarinn hans Silla valinn sá besti en matarvagn Silla í öðru sæti í kosningu gesta hátíðarinnar.

„Besti götubiti Íslands er titill sem við höfum unnið síðan við keyptum vagninn eða þrju ár í röð. Við erum með hreindýraborgara, gæsaborgara, gæsapylsur og hreindýrapylsur en í ár var það gæsaborgarinn sem vann og það er hann og hreindýrapylsan sem við fórum með út að keppa í Þýskalandi um besta götubita Evrópu. Þar vann gæsaborgarinn ,,Besti borgari Evrópu“ en við enduðum síðan í öðru sæti í dómaravali um besta götubita í heild sinni í Evrópu og einnig urðum við í öðru sæti í kosningu um besti götubita fólksins en það var kosning sem fór fram á staðnum af gestum hátíðarinnar. Þetta var rosaleg upplifun að fara svona ferðalag með vagninn og gekk rosalega vel og voru ansi margir sem fóru þetta ferðalag með okkur, fjölskylda og vinir, og meðal vina eru t.d vinir sem við höfum eignast á ferðlagi okkar um landið með vagninn,“ segir Silli hróðugur.

Þau hjónin Elsa Blöndal Sigfúsdóttir og Sigvaldi Jóhannesson, eða Silli kokkur, reka veisluþjónustu og hafa gert í ansi mörg ár en Silli segir að það hafi verið í covid að engar veislur voru haldnar sem þau fóru að íhuga hvað annað væri mögulega hægt að gera. „Ég hafði fyrir jólin og svona verið að framleiða borgara og pylsur, aðallega fyrir fjölskyldu og vini, en úr varð hugmyndin að útbúa grillpakka sem fólk gæti tekið með heim og grillað eitthvað annað en þetta hefðbundna. Þetta varð ofsalega vinsælt og ég alltaf að prufa eitthvað nýtt sem varð til þess að okkur langaði að fólkið fengi að smakka þetta eins og ég hafði hannað og hugsað þetta og úr varð að við byrjuðum með take away fyrir utan eldhúsið okkar á Kársnesbrautinni.

Fólk kom þar keyrandi og sat í bílum sínum og börnin okkar, Grétar Jóhannes og Petrós María, hlupu á milli bíla með grímur og hanska og tóku niður pantanir og greiðslu og færðu fólki síðan matinn tilbúinn í bílana sem við höfðum eldað inni í eldhúsinu. Þetta gekk mjög vel en svo leið að því að fólkið var farið að ferðast og veðrið var alls ekki gott hérna á höfuðborgarsvæðinu svo við tókum þá ákvörðun að fjárfesta í matarvagni.

Ég er með marga fylgjendur á Snapchat þar sem ég sýni frá veiði og framleiðslunni og öðru og fékk orðið ansi margar spurningar um það hvort að við værum ekki að fara að kíkja út á land,“ segir Silli sem hefur uppfært verkefnið og gefið út bók, Handbók Veiðimannsins. Hann segir bókina í raun byggða á þeim spurningum sem hann hefur verið að svara í gegnum Snapchattið en einnig eru í henni margar af hans uppáhalds uppskriftum.

Aðspurður um það hvernig það kom til að hann mætti með vagninn á Krókinn, segir Silli það hafa legið beinast við að byrja þar vegna fjölskyldutengsla. „Það er ótrúlegt hversu vel okkur er tekið alls staðar sem við förum og landsbyggðin í heild sinni held ég bara þakklát fyrir tilbreytinguna. Það er vinna að ferðast svona og verður alltaf stærra og meira í hvert skiptið en það er svo sannarlega þess virði þar sem viðtökurnar eru svo góðar. Núna förum við ekkert nema að vera fjögur eða fimm í vagninum en það eru börnin okkar sem og systurdóttir mín sem hafa farið allt með okkur í sumar en hún er einmitt líka ættuð úr Skagafirðinum.“

En hver skyldi tengingin við Krókinn vera? „Tengdaforeldrar mínir eru bæði frá Sauðárkróki en þau eru Sigfús Sigfússon og Vigdís Blöndal Gunnarsdóttir svo við höfum í gengum árin ansi oft heimsótt Skagafjörðinn. Vorum svo heppin að vegna tenginga fengum við að vera fyrir utan verkstæðið hjá Gylfa Ingimars og höfum eignast dýrmæta vini á Króknum eftir að við fórum að kíkja við reglulega. Yfirleitt byrjar sumarið hjá okkur á því að koma á Sauðárkrók svo það má segja að það sé svona upphafsstaðurinn okkar þegar við leggjum land undir fót með vanginn.“

Silli segir fjölskylduna hafa ferðast ansi víða um landið en auk Sauðárkróks er farið reglulega á Siglufjörð og Akureyri þar sem þau eru mikið á sumrin og komin með tryggan kúnnahóp þar sem annars staðar.

Jólin eru á næsta leiti, hvað verður á boðstólnum hjá þér og hver sér um eldamennskuna?

„Þegar það eru veislur heima og svona þá er það ég sem sé um eldamennskuna en annars er það konan sem eldar oftar á okkar heimili. Hjá okkur hefur verið hefð fyrir því síðan við fórum að halda jólin heima hjá okkur að það eru rjúpur og einnig hamborgahryggur ásamt heimalöguðu rauðkáli og tilheyrandi en við erum með graflax í forrétt og humar,“ útskýrir Silli.

Hann segir að fyrir jólin séu þau með framleiðslu á alls konar kræsingum eða yfir 35 vöruliði sem finna má á heimasíðunni sillikokkur.is, og segist alltaf hafa lagt mikinn metnað í að vinna og nýta hráefnið íslenska villibráð eins vel og hugsast getur. Einnig setja þau saman úr þessum kræsingum gjafakörfur sem verða alltaf vinsælli og vinsælli. Þá er er einnig hægt að kaupa bókina Handbók Veiðimannsins heimasíðunni en hér meðfylgjandi er ein uppskrift sem finna má í bókinni góðu.

Gæsapottréttur

Þetta er fyrsti rétturinn í bókinni því þetta er fyrsti rétturinn sem ég fór að laga úr villibráðinni og varð til þess að konan studdi mína veiði að því gefnu að hún fengi þennan annað slagið. Bæði er hægt að nota gæsabringur og læri eða hreindýr í þennan rétt. Þessi er fyrir þrjá.

500 gr. gæsalæri eða bringur
3 gulrætur
2 laukar
20-30 gr. villisveppir eða portobello sveppir
3 greinar garðablóðberg eða 1 msk. þurrkað timijan
1 stk. villisveppaostur eða ½ gráðaostur
1 stk. kjúklingateningur
1 staup púrtvín
Klípa af salti
Klípa af picanta
Maizena eða smjörbolla til þykkingar
Skvetta af rjóma
1-2 msk. af góðri sultu (helst bláberja)
Smá sósulit.

Aðferð:
Brúnið kjöt, lauk, sveppi, gulrætur og garðablóðberg á pönnu og setjið að því loknu í pott.
Púrtvín, teningur og sulta sett í pottinn og setjið svo vatn í pottinn þannig að það rétt nái upp fyrir hráefnið.
Sjóðið það rólega í um 1 klst.
Þykkt að lokum með þykkingarefni að eigin vali og rjóma bætt í.

Gott meðlæti væri t.d.:
Grænar baunir, rauðkál, sætar kartöflur og sulta.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir