Sigurjón áfram formaður UMSS

Fjölmennt ársþing UMSS var haldið í Félagsheimilinu Höfðaborg á Hofsósi sl. föstudagskvöld og bar það helst til tíðinda að Sigurjón Þórðarson var endurkjörinn formaður UMSS og Sigurgeir Þorsteinsson, bóndi kom í stjórn sambandsins í stað Páls Friðrikssonar.
 
 
Ávarp Formanns

 

Ágætu félagar, ég vil fyrir hönd Ungmennasambands Skagafjarðar bjóða ykkur hjartanlega velkomin á 89. ársþing UMSS sem haldið er að þessu sinni hér í Félagsheimilinu Höfðaborg á Hofsósi, í boði Ungmennafélagsins Neista.

Gesti býð ég sérstaklega velkomna sem sumir hverjir eru komnir um langan veg.

Síðasta starfsár var annasamt og vil ég nota tækifærið og þakka þeim sem störfuðu með mér í stjórn Ungmennasambandsins, Sigmundi Jóhannessyni, Helgu Eyjólfsdóttur, Jakobi Frímanni Þorsteinssyni og Páli Friðrikssyni fyrir ánægjulegt samstarf og vel unnin störf.

Mér er líka ljúft og skylt að þakka þann góða starfsanda sem ríkt hefur í kringum Ungmenna­sambandið á liðnu ári og ber þar hvergi nokkurn skugga á, s.s. við fulltrúa aðildarfélaganna 11 sem standa að sambandinu, sveitarstjórnar Skagafjarðar, ÍSÍ og ekki hvað síst UMFÍ. Kaup­félag Skagfirðinga veitti sambandinu myndarlegan styrk til kaupa á samkomutjaldi og er einn af kjölfestustyrktaraðilum að Unglingalandsmóti UMFÍ á Sauðárkróki næsta sumar. Stjórn UMSS vill varpa því fram hér til umræðu að ráð eða eitt aðildarfélag sambandsins taki að sér umsjón með tjaldinu og leigi það út til fjáröflunar gegn því að tjaldað verði fyrir UMSS tvisvar til þrisvar á ári.

Reikningar UMSS bera með sér að stjórnin hefur verið aðhaldssöm. Hún safnaði lítilræði í sjóð sem kemur sér vel þegar tekist verður á við upprennandi verkefni. Í fyrravor hafði Ung­mennasambandið það verk með höndum að gera tillögu að skiptingu á 9 milljóna króna styrk sveitarfélagsins til aðildarfélaga UMSS. Það er skýrt í mínum huga að það þarf að fara yfir það verklag sem notað er til að skipta þessum takmörkuðu gæðum með sem sanngjörn­ustum hætti. Grunnforsendurnar sem unnið er út frá við skiptingu fjárins eru að mörgu leyti góðar en þar ræður m.a. hversu fjölbreytt starfsemi aðildarfélags er og hversu margir iðkendur stunda reglulegar æfingar.  Það sem á vantar er samræmi í upplýsinga gjöf og hvernig eigi að leggja hlutlægt mat á upplýsingar sem berast frá aðildarfélögunum. Við gerð tillagna sl. vor var ákveðið að nota ákveðna sveiflujöfnun sem hafði í för með sér að framlög til einstaks félags hækkaði hvorki né lækkaði nema að hámarki um 10%. Ég vil gera það að tillögu minni að íþróttafulltrúi sveitarfélagsins, Sævar Pétursson, fari yfir það verklag sem hefur verið við lýði og endurskoði það í samráði við stjórn UMSS fyrir næstu úthlutun sveitarfélagsins.

Helsta nýbreytnin í starfi UMSS var starfræksla Frjálsíþróttaskóla í samráði við UMFÍ sem tókst afar vel. Fráfarandi framkvæmdastjóri, Alda Haraldsdóttir, hélt með sóma utan um skólann og var hann rekinn réttu megin við núllið. Gunnar Sigurðsson frjálsíþróttaþjálfari hafði yfirumsjón með þjálfun og hefur mér borist til eyrna almenn ánægja með þjálfunina frá frjálsíþrótta­krökkunum sem sóttu Sauðárkrók heim.

Eitt stærsta verkefni síðasta sumars var að fjölmenna á Unglingalandsmót UMFÍ í Þorlákshöfn um  verslunarmannahelgi. Skagfirðingar sendu sveit sem tók þátt í ýmsum íþróttum, m.a. sundi, frjálsum íþróttum og knattspyrnu. Það er mitt mat að það skorti á ákveðna hefð meðal iðkenda vinsælla íþróttagreina í Skagafirði í að taka þátt í mótunum, s.s. körfubolta og fótboltanum, sem er miður enda eru unglingalandsmótin einkar skemmtileg mót.

Til framtíðar litið er mikilvægt að stjórn UMSS virki íþróttaráðin fyrr og betur til þess að hvetja skagfirska íþróttamenn til þess að taka þátt í landsmótum UMFÍ. Ég met það svo að ráðin hafi verið misvirk að vanda. Frjálsíþróttaráðið var mjög virkt að venju og stóð fyrir fjölda móta en önnur ráð, s.s. hestaráð og sundráð, stóðu einnig fyrir mótum.

Á komandi sumri blasir við Skagfirðingum ánægjulegt verkefni sem er að halda Unglinga­landsmót á Sauðárkróki en á Sauðárkróki er einstaklega góð aðstaða til keppni í öllum íþróttum sem venja er að keppt sé í á Unglingalandsmóti. Hér er einnig öflugur hópur fólks sem hefur góða æfingu í að skipuleggja og hafa umsjón með íþróttakeppni.

Fyrr í dag var skrifað undir samning sveitarfélagsins, UMFÍ og UMSS um mótshaldið en undir­búningur er þegar hafinn. Það að mótið skuli haldið hér í Skagafirði bar brátt að en það stafar af því að Grundfirðingar þurftu vegna ástands efnahagsmála að fresta uppbyggingu íþrótta­mannvirkja um eitt ár en þau voru forsenda mótshaldsins.

Ég er bjartsýnn á að vel takist til þó að skammur tími sé til stefnu en mótshaldið hvílir á ára­langri reynslu UMFÍ og undirbúningi sem hafði farið fram við undirbúning mótsins í Grundar­firði og sömuleiðis reynslu Skagfirðinga við að halda tvö landsmót sama árið fyrir fimm árum.

Búið er að skipa landsmótsnefnd og er formaður hennar Halldór Halldórsson og er vara­for­maður Hrefna Guðmundsdóttir. Sömuleiðis hefur UMSS ráðið lipran starfsmann, Elmar Eysteinsson, til að starfa að undirbúningi UMSS og vil ég nota tækifærið og hvetja ráð og aðildarfélög til að nýta sér vinnufúsar hendur Elmars.

Það er ljóst að í mörgu verður að snúast næstu vikur og mánuði og hætt við að önnur verk­efni verði sett á ís á meðan, s.s. að undirbúa afmæli en UMSS verður 100 ára á næsta ári. Á sínum tíma var sú tillaga uppi að ráða mann til verksins sem tæki að sér að skrifa sögu sam­bandsins en viðkomandi hefur gefið verkið frá sér í ljósi þess hversu umfangsmikið það er. Mín tillaga er að verkið verði skilgreint nánar í vinnuhóp hér á þinginu, jafnvel með þeim hætti að í stað veigamikillar útgáfu verði gefinn út myndskreyttur bæklingur með ágripi af sögu UMSS sem mætti þess vegna dreifa með héraðsfréttablaðinu Feyki. Með þessu móti mætti dreifa ungmennafélagsandanum til fleiri, með ódýrari hætti og láta ítarlega innbundna sagnfræðilega samantekt bíða næsta góðæris.

Á þessu ársþingi sem er í þann mund að hefjast bíða margvísleg mál nánari umræðu, m.a. að fara yfir drög að vinnureglum varðandi útnefningu íþróttamanns Skagafjarðar og, jú, auðvit­að verkefni ársins hér í Skagafirði sem hlýtur að vera Unglingalandsmótið um verslunar­manna­­helgina en við Skagfirðingar erum upp með okkur og þakklát fyrir að vera treyst fyrir að fá að halda íþrótta- og fjölskylduhátíð sumarsins.

Ég segi 89. ársþing UMSS sett.
Skýrsla stjórnar UMSS 2008

 

Síðasta ársþing sem var hið 88. í röðinni var haldið 29.2.2008 í Verinu á Sauðárkróki í boði Umf. Tindastóls.

Á fundinum lét Guðmundur Þór Guðmundsson af formennsku, Arnar Halldórsson og Margrét Stefánsdóttir gengu úr stjórn. Páll Friðriksson og Sigmundur Jóhannesson sátu áfram enda höfðu þeir verið kjörnir til tveggja ára á 87. ársþingi. Úr varastjórn gengu þeir Friðrik Jónsson og Karl Jónsson.

Nýr formaður, Sigurjón Þórðarson var kjörinn á þinginu og stjórn skipti með sér verkum og var varaformaður Jakob Frímann Þorsteinsson, Sigmundur Jóhannesson ritari, Páll Friðriksson gjaldkeri og Helga Eyjólfsdóttir stjórnarmaður.

Á starfsárinu voru haldnir 22. stjórnarfundir auk ýmissa óformlegra. Sigurjón Þórðarson sótti fundi fyrir hönd sambandsins til forráðamanna sveitarfélagsins til þess að óska eftir stuðningi við ósk um að halda landsmót UMFÍ á Sauðárkróki.  Umsókn um mótshald var síðan fylgt eftir með Grétu Sjöfn Guðmundsdóttur forseta sveitarstjórnar Skagafjarðar.  Ekki kom það í hlut Skagfirðinga að halda unglingalandsmóti UMFÍ á 100 ára afmæli sambandsins árið 2010 eins og stefnt hafði verið að, heldur kom það mjög óvænt upp í febrúar 2009 að ákveðið var að halda unglingalandsmótið í ár á Sauðárkróki.

 Sá möguleiki að halda mótið í ár var ekki nefndur fyrr til sögunnar en á stjórnarfundi UMFÍ í byrjun febrúar á  Jarlstofunni á Hótel Tindastól.  Stjórn UMFÍ fundaði með stjórn UMSS, formönnum aðildarfélaga UMSS og fulltrúum sveitarfélagsins Skagafjarðar til þess að ræða þann kost að halda  unglingalandsmótið á Sauðárkróki þar sem fresta þurfti mótshaldi á Grundarfirði vegna stöðu efnahagsmála. Þann 16.febrúar var síðan tekin sú gleðilega ákvörðun af stjórn UMFÍ að halda unglingalandsmót á Sauðárkróki 2009.

UMSS hefur aðstöðu í húsnæði Oddfellow reglunnar að Víðihlíð 10 á Sauðárkróki. Síðastliðið sumar var Alda Laufey Haraldsdóttir ráðin sem framkvæmdarstjóri yfir háannatímann í sumar og sinnti hún starfinu fram á haustið og þakkar UMSS henni fyrir vel unnin störf.  Sl. vor voru til sölu íþróttagallar á vegum UMSS. Anna Sigríður Stefánsdóttir kaupkona í Tískuhúsinu sá um söluna, stjórn færir henni bestu þakkir fyrir störf hennar í þágu UMSS. Nýlega tók til starfa hjá sambandinu Hjaltdælingurinn Elmar Eysteinsson og bindur stjórnin miklar vonir við hans störf.

UMFÍ stofnaði til Frjálsíþróttaskóla UMFÍ á nokkrum stöðum á landinu vikuna 7.-11. júlí, í Borgarnesi, á Sauðárkróki og á Egilsstöðum.  Á Sauðárkróki voru 19 krakkar á aldrinum 11-14 ára í æfingabúðunum. Þau komu frá Grindavík, Húnavatnssýslum, Skagafirði, Siglufirði og Akureyri.  Aðalþjálfari var Gunnar Sigurðsson, en honum til aðstoðar voru aðrir landsþekktir þjálfarar og íþróttamenn, Gísli Sigurðsson, Rakel Gylfadóttir og Sveinn Margeirsson.  Umsjónarmaður utan æfinga var Alda Laufey Haraldsdóttir.  Dagskráin var fjölþætt, heimsóknir, gönguferðir, sund og leikir milli æfinga. Margir aðilar lögðu hönd á plóg til að gera þetta verkefni að veruleika og þakkar UMSS fyrir veitta aðstoð.  KS og Ólafshús hjálpuðu til við matinn,Haraldur Þór Jóhannsson eða Halli í Enni flutti hópinn milli staða og Sveitarfélagið gaf frítt í sund. Hér var um að ræða tilraunaverkefni, en af reynslunni hér á Sauðárkróki erum við Skagfirðingar vissir um að þessi skóli er kominn til að vera.

 

Unglingalandsmótið fór fram á Þorlákshöfn og mættu þar Sigurjón formaður, Alda framkvæmdarstjóri ásamt fylktu liði UMSS og stóðu allir sig með stakri prýði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir