Sigurdís og Bergmál fjallanna
Næstkomandi fimmtudagskvöld, 10. október, heldur húnvetnska tónlistarkonan Sigurdís tónleikana „Bergmál fjallanna” í Djúpinu í Hafnarstræti í Reykjavík. Sigurdís er lagasmiður, píanóleikari og söngkona, búsett í Danmörku, en alin upp í Ártúnum í Blöndudal í Austur-Húnavatnssýslu.
Í kynningu á tónleikunum segir að „Bergmál fjallanna” samanstandi af frumsömdu efni Sigurdísar sem er innblásið af uppvexti hennar í sveitum Norðurlands. „Tónlistin kannar meðal annars andstæður náttúrunnar: björtu sumarnæturnar sem umbreytast í dimmar vetrarnætur og þögnina í náttúrunni sem vekur bæði friðsæld og einmanaleika.
Sigurdís flytur einnig lög sín við ljóð Jónasar Tryggvasonar. Jónas var afabróðir Sigurdísar sem fæddist og bjó á sama stað og hún, en á öðrum tíma. Í einlægum ljóðum fléttar hann íslenskri náttúru saman við gleði og sorgir lífsins, ljósið og myrkrið, draumana og veruleikann.“ Með Sigurdísi spila annáluð séní; Birgir Steinn Theodórsson á bassa og Matthías Hemstock á trommur.
Sigurdís hefur að sjálfsögðu svarað Tón-lystinni í Feyki þannig að ef einhvern langar að kynnast henni nánar þá er bara að smella hér >
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.