„Síðari umferðin leggst vel í okkur“

Guðni Þór og Óskar Smári. MYND: DAVÍÐ MÁR
Guðni Þór og Óskar Smári. MYND: DAVÍÐ MÁR

Nú þegar Pepsi Max deild kvenna er hálfnuð, fyrri umferðin að baki, eru nýliðar Tindastóls í neðsta sæti með átta stig en eftir ágæta byrjun á mótinu fylgdu fimm tapleikir í röð. Liðið hefur hins vegar haldið markinu hreinu í síðustu tveimur leikjum og hirt í þeim fjögur stig af liðunum í þriðja og fjórða sæti deildarinnar. Það gefur góða von um framhaldið og vonandi að liðið sé búið að finna taktinn í efstu deild. Feykir lagði nokkrar spurningar fyrir þjálfara liðsins, þá Guðna Þór Einarsson og Óskar Smára Haraldsson.

Við byrjum á því að spyrja Óskar Smára út í leikinn í gær.

Var þjálfarateymi Tindastóls ánægt með leikinn gegn Stjörnunni? „Þjálfarateymið var gríðarlega stolt af liðinu á Samsung velli í gær. Baráttan og sigurviljinn var það sem gaf okkur þrjú stig i gær,“ segir Óskar.

Guðni, hver finnst þér vera helsti munurinn á Pepsi Max og Lengjudeildinni? „Stökkið er mjög hátt á milli deildanna. Helsti munurinn er fyrst og fremst að leikurinn er töluvert hraðari, gæði leikmanna eru mun meiri sem þýðir að augnabliks einbeitingarleysi getur kostað mark. Liðin og leikmenn eru fljót að þefa uppi veikleika og refsa fyrir hver mistök.“

Aðspurður um hvaða andstæðingur hafi reynst Stólunum erfiðastur í vetur segir Guðni að lið Tindastóls hafi mætt Val á vondum tíma, eftir að þær töpuðu stórt á móti Blikum. „Þær mættu einbeittar og vel undirbúnar til leiks og spiluðu líklega sinn allra besta leik í sumar. Elín Metta Jensen hafði fyrir þann leik fengið gagnrýni fyrir markaþurrð í fjölmiðlum, hún mætti staðráðin í að svara fyrir það og skoraði tvö mörk og var illviðráðanleg.“

Óskar Smári, er eitthvað sem hefur komið á óvart í Pepsi Max deildinni í sumar? „Það kemur á ovart hvað deildin er jöfn. Það geta allir unnið alla, það er bara þannig.“

Er einhver leikmaður liðsins sem hefur komið á óvart eða tekið framförum? „Já, við teljum að allir leikmenn hafa bætt sig mjög mikið og sannað það að þær standast alveg samanburð við bestu leikmenn landsins,“ segir Guðni. „Varnarlínan hefur staðið sig mjög vel, sérstaklega í síðustu tveimur leikjum. Kristrún María hefur tekið miklum framförum í sumar og hún og Bryndís mynda mjög sterkt miðvarðarpar. Laufey Harpa og María hafa leyst bakvarðastöðurnar mjög vel varnar- og sóknarlega og svo verðum við að nefna Amber í markinu, hún hefur bætt sig gríðarlega mikið í sumar og er að okkar mati einn allra besti markvörður deildarinnar.“

Guðni segir að þrátt fyrir að lið Tindastóls vermi botnsætið þessa dagana þá hafi þeir verið mjög ánægðir með frammistöðuna í mörgum af leikjum sumarsins. „Sigurleikirnir tveir gegn ÍBV og Stjörnunni standa auðvitað upp úr. Það sem var einkennandi fyrir þá sigra var að við byrjuðum þessa leiki afar vel, settum tóninn frá byrjun og náðum að halda úti góðri baráttu og stemningu inn á vellinum sem og á bekknum.“

Átta stig að lokinni fyrri umferð; eru menn sáttir við árangurinn og hvernig leggst síðari umferðin í ykkur? „Átta stig er allt i lagi,“ segir Óskar Smári og heldur áfram. „Við vildum níu en fáum átta. Síðari umferðin leggst vel í okkur. Við höfum spilað við öll lið, þetta hafa verið hörkuleikir allt saman fyrir utan kannski leikinn gegn Val hér heima – þar sáum við ekki til sólar. Við viljum klárlega gera það betur að klára leikina. Eins og ég sagði her áðan; allir leikir eru hörkuleikir. Við höfum misst sigra niðurí jafntefli og jafntefli í töp undir lokin og við þurfum að laga það.“

Fimm tapleikir í röð er ekki eitthvað sem lið Tindastóls á að venjast síðustu ár, hvernig hafa stelpurnar tæklað mótlætið, eru sterkir karakterar í hópnum? „Þegar við fórum út í sumarið þá gerðum við okkur alveg fulla grein fyrir því að það gæti komið tímabil sem yrði erfitt og við myndum ekki ná í úrslitin sem okkur myndi finnast við eiga skilið,“ segir Guðni. „Að tapa fimm leikjum í röð er erfitt fyrir andlega þáttinn og þá þarf afar sterka karaktera til að koma sér aftur á beinu brautina. Í okkar röðum erum við heppin að hafa nokkra leiðtoga sem stíga upp á erfiðum tímum. Mikilvægast var að hvorki leikmenn né þjálfarar misstu aldrei trúna á verkefninu heldur gripu í helsta vopnið okkar, liðsheildina og breyttum mótlætinu í hvatningu til að bæta sig enn frekar.“

Það hefur ekki verið leyndarmál að stefnt er að því að styrkja lið Tindastóls í leikmannaglugganum. Er eitthvað að frétta af leikmannamálum? „Leikmannamálin eru í fullri vinnslu. Við vonumst til þess að það skrifi leikmaður undir samning við Tindastól á næstu dögum,“ segir Óskar Smári að lokum.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir