Sex nýsköpunarverkefni frá Norðurlandi vestra fengu styrk úr Lóu

Á heimasíðu Stjórnarráðsins segir að tilkynnt hefur verið um úthlutanir úr Lóu - nýsköpunarstyrki fyrir landsbyggðina. Í ár hljóta 27 verkefni styrk alls fyrir tæplega 139 milljónir króna. Nýsköpunarverkefnin sem hljóta styrk að þessu sinni eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg og dreifast um landið allt. Styrkjum úr Lóu er ætlað að styðja við eflingu byggða og landshluta með nýskapandi verkefnum, auk þess að hlúa að vistkerfi nýsköpunar á landsbyggðinni.

Alls bárust 89 umsóknir á fjölbreyttum sviðum, frá nýskapandi verkefnum með sjálfbærni og fullnýtingu afurða að leiðarljósi til uppbyggingu innviða fyrir rannsóknir og þróun og innleiðingu nýrra aðferða og verkfæra fyrir nýsköpunarumhverfið.

Lóa - nýsköpunarstyrkir fyrir landsbyggðina 2024 voru auglýstir 20. febrúar sl. og var umsóknarfrestur til og með 4. apríl. Matsnefnd fór yfir allar umsóknir og gerði í kjölfarið tillögur um styrkveitingu til háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Í matsnefnd Lóu árið 2024 sátu Eva Hrund Einarsdóttir, framkvæmdarstjóri MAk (Menningarfélags Akureyrar), Tryggvi Hjaltason, formaður Hugverkaráðs og Sesselja Vilhjálmsdóttir framkvæmdastjóri Tagplay.

Þau verkefni sem hlutu styrk frá Norðurlandi vestra í ár voru eftirfarandi:

Elínborg Erla Ásgeirsdóttir - 3.090.000 kr. Valhumall, lífræn ræktun og framleiðsla. Verkefnið gengur út á að hagnýta valhumal sem hráefni í lífrænt vottaða matvælaframleiðslu.

1238 Baráttan um Ísland - 6.000.000 kr. - Byggð á Blönduósi - Verkefnið felst í hönnun og þróun á sýndarveruleikaupplifun sem miðlar sögu íbúabyggðar á Blönduósi árið 1900 annars vegar og 1958 hins vegar. Verkefnið er næsta skref í vegferð sem þegar er hafin með gerð stafrænna þrívíddarmódela á byggð á Blönduósi á þessum árum.

Alor ehf. - 3.100.000 kr. - Birtuorka bænda - Settur verður upp birtuorkubúnaður á fjórum býlum í því skyni að öðlast reynslu af virkjun og geymslu birtuorku og fá rauntölur framleiðslu á bónda á svæðinu. Kerfin verða sett upp á býlum í mismunandi búrekstri og munu niðurstöðurnar veita dýrmæta innsýn í fýsileika reksturs slíkra kerfa eftir búrekstri.

Pareto lausnir ehf. - 5.922.000 kr - Vasareiknir - Vasareiknir verður notendavænn og sveigjanlegur hugbúnaður hannaður til að hjálpa einstaklingum, aðilum vinnumarkaðarins, stjórnmálafólki og sérfræðingum að meta áhrif skatta- og bótakerfa á ráðstöfunartekjur. Með Vasareikni verður hægt að kanna áhrif breytinga eða nýjunga sem hafa áhrif á ráðstöfunartekjur og taka betri ákvarðanir við kjarasamningaborðið, í þingsal eða við eldhúsborðið.

Hátæknisetur Íslands - 4.140.000 kr. - Sægarðar á Sauðárkróki - Nýsköpunarverkefnið Sægarðar á Sauðárkróki gengur út á að skipuleggja sérhæfða iðngarða þar sem einstakar aðstæður skapast til stuðnings við nýsköpun fyrirtækja og frumkvöðla á sviði sjálfbærs lagareldis og ræktar. Hjarta garðanna er starfsemi Háskólans á Hólum sem snýr að námi og rannsóknum á sjálfbæru lagareldi og rækt.

Textílmiðstöð Íslands - 3.000.000 kr. - Íslenski textílklasinn - þverfaglegt samstarf um eflingu textílframleiðslu á Íslandi - Með Íslenska textílklasanum er markmiðið að efla textílframleiðslu á Íslandi með auknu samstarfi og nýsköpun. Stefnt er að eflingu verðmætasköpunar sem byggir á hugviti, stafrænni tækni og að leiða saman hefðbundnar aðferðir og nýja tækni með áherslu á hringrásarhagkerfið.

Hér er hægt að sjá listann með öllum þeim verkefnum sem hlutu styrk úr Lóu - nýsköpunarstyrkir fyrir landsbyggðina 2024

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir